Innlent

Ingvar Smári er nýr formaður SUS

Samúel Karl Ólason skrifar
Ingvar Smári Birgisson.
Ingvar Smári Birgisson.
Ingvar Smári Birgisson er nýr formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann bar sigur úr býtum gegn Ísaki Einari Rúnarssyni í kosningu sem fram fór á Sambandsþingi SUS á Eskifirði um helgina. Ingvar fékk 222 atkvæði og Ísak fékk 210. Sex atkvæði voru auð eða ógild.

Umtalsverðir lögheimilisflutningar hafa verið undanfarið eins og Vísir hefur fjallað um. Borið hefur á því að stuðningsmenn beggja formannsefna hafi flutt lögheimili sín til Reykjavíkur til að reyna að tryggja sér sæti á þinginu sem fulltrúi Heimdalls.

Sjá einnig: Menntskælingum við Sund boðið í djammferð hringinn í kringum landið.

Eftirfarandi kom fram í framboðstilkynningu Ingvars fyrr á árinu:

Ingvar er á 24 ára gamall og uppalinn í Reykjavík. Hann starfar hjá Nordik lögfræðiþjónustu en hann lauk BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og stundar nú meistaranám í lögfræði við sama skóla. Hann lauk stúdentsprófi af fornmálabraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2013. Ingvar starfaði áður sem blaðamaður á Morgunblaðinu.

Ingvar hefur setið í stjórn SUS frá árinu 2013 og verið afar virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Þá gegndi hann formennsku í Heimdalli, félagi ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 2013 til 2015 en Heimdallur er stærsta aðildarfélag SUS. Ingvar hefur einnig verið virkur í starfi alþjóðasamtakanna Students For Liberty og skipulagt fjölmargar alþjóðlegar ráðstefnur á þeirra vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×