Innlent

Birgitta aftur þingflokksformaður Pírata

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Birgitta snýr aftur sem þingflokksformaður Pírata.
Birgitta snýr aftur sem þingflokksformaður Pírata. Vísir/Stefán
Birgitta Jónsdóttir hefur verið kosin þingflokksformaður Pírata. Hún tekur við af Einari Brynjólfssyni sem tók við af Ástu Guðrúnu Helgadóttir í maí síðastliðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Pírata þar sem segir að ný stjórn þingflokks Pírata hafi verið kjörin á þingflokksfundi í gær. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er varaformaður þingflokks og Jón Þór Ólafsson er ritari þingflokks.

„Stjórnarkjörið er hluti af endurskipulagningu innan þingflokksins sem hefur staðið yfir í sumar en verkaskipting og valddreifing er nú jafnari en áður meðal stjórnarliða þingflokks. Þessi verkaskipan er aðeins einn angi af vinnu þingflokks við að skerpa á leiðum til að hrinda í framkvæmd helstu stefnumálum Pírata,“ segir í tilkynningunni.

Birgitta er því aftur orðin þingflokksformaður Pírata en hún lét af störfum sem slíkur 31. janúar síðastliðinn, þegar Ásta Guðrún tók við formennsku.


Tengdar fréttir

Einar nýr þingflokksformaður Pírata

Einar Brynjólfsson var kjörinn nýr formaður þingflokks Pírata á þingflokksfundi sem lauk fyrr í dag. Hann tekur við af Ástu Guðrúnu Helgadóttur sem steig til hliðar vegna ágreinings um innra starf þingflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×