Erlent

Úr öskunni í eldmaurinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eldmaurarnir fljóta ofan á hræum dauðra félaga sinna til að halda sér á lífi.
Eldmaurarnir fljóta ofan á hræum dauðra félaga sinna til að halda sér á lífi. Skjáskot
Íbúar Texas hafa ekki einungis þurft að hafa áhyggjur af miklum vindum og vatnavöxtum í kjölfar hitabeltislægðarinnar Harvey sem gekk á land um helgina. Stærðarinnar „eldmauraflekar“ hafa sést fljóta ofan á vatnselgnum sem lagt hefur heilu borgarhlutana í rúst.

Til að forðast drukknun flýja maurarnir búin sín og þúsundum saman fljóta þeir ofan á hræum dauðra eldmaura. Þannig tekst þeim að halda sér þurrum og á lífi.

Skordýrafræðingur sem Guardian ræðir við segist aldrei hafa séð annan eins eldmaurafjölda á öllum sínum árum í skordýrabransanum. Flekarnir geti hangið saman svo vikum skipti, án næringar geti maurarnir þó ekki lifað lengi.

Eldmaurarnir eiga rætur sínar að rekja til sléttna meðfram Pargavæ-ánni í Suður-Ameríku sem reglulega fara undir vatn þegar áin flæðir yfir bakka sína.

Þrátt fyrir að þessi hegðun eldmauranna sé vel þekkt og Bandaríkjamenn hafi t.a.m. kynnst í kjölfar fellibylsins Katrínu árið 2004 hafa myndir af eldmauraflekunum valdið usla á samfélagsmiðlum.

Eldmaurar komu fyrst til suðurríkja Bandaríkanna á fjórða áratug síðustu aldar og hefur fjölgað á ógnarhraða með alvarlegum afleiðingum fyrir lífríki svæðisins.

Maurarnir eru sagðir mjög árásargjarnir og er biti þeirra lýst sem gífurlega sársaukafullu. Sýkingar sem fylgt hafa í kjölfar bitanna hafa jafnvel, í nokkrum ofnæmistilfellum, dregið fólk til dauða.


Tengdar fréttir

Hver millímetri viðheldur hörmungunum

Íslenskur veðurfræðingur útskýrir hvað hefur gert Harvey að svo öflugum stormi. Ástandið muni ekki endilega skána þó að úrkoman minnki á næstu dögum.

Sér fram á dýrustu uppbyggingu í sögu Bandaríkjanna

Til umræðu er innan raða þingmanna Repúblikanaflokksins að fjárhagsaðstoð vegna fellibylsins Harvey verði með þeim hætti að fé verði veitt í áföngum í stað þess að ein stór greiðsla verði innt af hendi. Þetta þýðir að nokkur töf geti orðið á veittri fjárhagsaðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×