Erlent

Vinsæll indverskur gúrú sekur um nauðgun

Atli Ísleifsson skrifar
Gúrúinn Gurmeet Ram Rahim Singh er mjög vinsæll í heimalandinu.
Gúrúinn Gurmeet Ram Rahim Singh er mjög vinsæll í heimalandinu. Vísir/AFP
Dómstóll á Indlandi hefur dæmt gúrúinn Gurmeet Ram Rahim Singh sekan af ákæru um nauðgun. Refsing verður ákveðin á mánudag.

BBC segir frá því að Singh sé mjög vinsæll í heimalandinu og hafi um 200 þúsund aðdáenda hans flykkst til Chandigarh í norðurhluta landsins fyrr í vikunni þar sem ákvörðunar dómara var beðið.

Þúsundir hermanna, lögreglumanna og varaliðsmanna hafa verið send á vettvang af ótta við óeirðir. Fréttir hafa borist um að táragasi hafi verið beitt á stuðningsmenn gúrúsins.

Singh yfirgaf setur sitt í Haryana-ríki í rúmlega hundrað bíla bílalest og mætti í dómshúsið í bænum Panchkula þar sem hann hlýddi á orð dómara í morgun.

Talsmenn yfirvalda segja að skólum og skrifstofum á svæðinu hafi verið lokað, lestarferðum aflýst, vegum lokað og þrír íþróttaleikvangar lagðir undir sem bráðabirgðafangageymslur, ef kæmi til átaka.

Singh verður nú færður á nálæga herstöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×