Innlent

Kínverjar hafa áhuga á Neðri-Dal

Benedikt Bóas skrifar
Neðri-Dalur í Biskupsstungum er með Geysissvæðið nánast í bakgarðinum hjá sér. Mynd/Stakkafell
Neðri-Dalur í Biskupsstungum er með Geysissvæðið nánast í bakgarðinum hjá sér. Mynd/Stakkafell

Kínverskir fjárfestar hafa áhuga á að skoða kaup á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum. Ásett verð er 1,2 milljarður króna en jörðin er 1.200 hektarar að stærð og er sú næsta við Geysissvæðið í Haukadal.

„Horfa þeir helst til staðsetningar jarðarinnar og þess að þar er heitt vatn,“ segir Böðvar Sigurbjörnsson, fasteignasali hjá Stakfelli sem hefur jörðina til sölu. Á jörðinni er nokkurt magn af nýtanlegu heitu vatni og þær prófanir sem gerðar hafa verið, gefa vísbendingu um talsvert meira magn af heitu vatni í jörðu.

„Hyggjast þeir byggja upp ferðamannatengdan iðnað og kemur þar nýting heita vatnsins verulega við sögu,“ bætir Böðvar við. Jörðin er gríðarlega stór og auk heita vatnsins sem þar er að finna er þar kaldavatnslind, á með silungi og laxi og Bjarnafell tilheyrir jörðinni með sínu útsýni. Þess utan liggur jörðin auðvitað við einn fjölfarnasta ferðamannastað landsins.

Átta bræður eiga jörðina og munu þeir taka smá skika fyrir sumarbústaði sína. Töluverðar þreifingar hafa verið síðan jörðin fór í söluferli hjá Stakkafelli en búið er að útbúa myndarlega sölukynningu á jörðinni á íslensku og ensku.


Tengdar fréttir

Milljarða jörð til sölu

Jörðin Neðri-Dalur í Biskupstungum er komin í söluferli hjá fasteignasölunni Stakfelli og er ásett verð 1,2 milljarðar króna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.