Innlent

Gagnrýnir ummæli Jóns H. B. Snorrasonar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Jón H. B. Snorrason mun hefja störf hjá ríkissaksóknara eftir verslunarmannahelgi.
Jón H. B. Snorrason mun hefja störf hjá ríkissaksóknara eftir verslunarmannahelgi. Vísir/E.Ól.
Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður manns sem kærði framgöngu lögreglunnar þegar hann var handtekinn fyrir utan Hamborgarabúlluna í Kópavogi í vor, furðar sig á ummælum Jóns H. B. Snorrasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns lögreglu höfuðborgarsvæðisins, í fréttum Ríkissjónvarpsins 27. júlí síðastliðinn þess efnis að ekkert bendi til að lögreglumennirnir sem stóðu að handtökunni hafi farið offari.

„Ég held að Jón hafi ekki séð rannsóknargögn málsins og viti ekkert um málið nema það sem hann hefur frá lögreglumönnunum sjálfum,“ segir Ómar Örn. „Þegar lögreglumaður, samkvæmt vitnum, er að skella bílhurð ítrekað á fótleggi manns og tvífótbrjóta hann vegna þess að hann neitaði gefa upp kennitölu sína, þá finnst mér það vera offors.“

Málið er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara en nefnd um eftirlit með lögreglu vísaði málinu þangað þar sem það varðar grun um refsivert athæfi.

Ómar Örn segir ummælin ekki síður óheppileg í ljósi þess að Jón bendir sjálfur á að málið sé enn í rannsókn hjá óháðum aðila og einnig með hliðsjón af stöðu Jóns sem mun hefja störf sem saksóknari hjá ríkissaksóknara í næstu viku.

Ríkissaksóknari er kæruaðili í málum héraðssaksóknara og niðurstaða um ákæru í umræddu máli getur því sætt kæru til ríkissaksóknara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×