Innlent

Yfirfullt á tjaldsvæðin á Akureyri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lokað hefur verið fyrir gestakomur á tjaldsvæðið, en hér má sjá svæðið við Þórunnarstræti.
Lokað hefur verið fyrir gestakomur á tjaldsvæðið, en hér má sjá svæðið við Þórunnarstræti. vísir/ásgeir
Tjaldsvæðin á Akureyri, bæði við Þórunnarstræti og að Hömrum við Kjarnaskóg, eru fullsetin og búið er að loka fyrir frekari gestakomur. Annar eins fjöldi á svæðinu hefur vart sést frá árinu 2004, að sögn Ásgeir Hreiðarssonar, hjá Hömrum, útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta sem rekur bæði tjaldsvæðin.

„Ástæðan er líklega bara góð veðurspá,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu. „Það er erfitt að skjóta á fjölda en ætli þetta sé ekki eitthvað í kringum þrjú þúsund manns.“

Hann segir að almennt sé mikið að gera á tjaldsvæðinu þegar veður er gott. Hins vegar sé nokkuð óvanalegt að tjaldsvæðið sé orðið fullt fyrir klukkan 22 á föstudagskvöldi. Aðspurður segist hann telja að það muni losna eitthvað um á morgun.

„Það er alltaf einhver hreyfing á fólki. Hér er hópur sem fer á morgun, svo halda margir annað, jafnvel í betra veður og svo framvegis,“ segir Ásgeir. Hann segist ekki geta svarað til um hvernig staðan sé á tjaldsvæðum í kring, en hvetur fólk til þess að hringja á undan sér, svo það komi ekki að lokuðum dyrum.

Líkt og Ásgeir bendir á er veðurspá helgarinnar nokkuð góð, en á norður- og norðausturlandi er búist við allt að 24 stiga hita.

Hamrar við Kjarnaskóg.vísir/ásgeir
Það er líf og fjör á Akureyri.vísir/ásgeir
vísir/ásgeir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×