Erlent

Kanadískir trúarleiðtogar sakaðir um fjölkvæni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árið 2008 gerði lögregla áhlaup á búgarð í Texas. Meðlimir í FLDS-söfnuðinum bjuggu á búgarðinum, þar af 439 börn, en nokkir menn voru í kjölfarið sóttir til saka fyrir fjölkvæni og barnaníð.
Árið 2008 gerði lögregla áhlaup á búgarð í Texas. Meðlimir í FLDS-söfnuðinum bjuggu á búgarðinum, þar af 439 börn, en nokkir menn voru í kjölfarið sóttir til saka fyrir fjölkvæni og barnaníð. Vísir/Getty
Búist er við því að dæmt verði í máli tveggja kanadískra trúarleiðtoga, sem sakaðir hafa verið um fjölkvæni, í dag. Dómsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Winston Blackmore er sakaður um að eiga tuttugu og fjórar eiginkonur og fyrrverandi mágur hans, James Olar, er sagður hafa gifst fjórum konum. Mennirnir eru báðir fyrrverandi biskupar mormónasértrúarsöfnuðarins FLDS (Fundamentalist Church of Jesus Christ of Latter Day Saints), og eru 61 og 53 ára.

Fjölkvæni er ólöglegt í Kanada en mennirnir eiga yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist, verði þeir dæmdir sekir.

Blackmore var bannfærður úr söfnuðinum árið 2002 og Oler tók við sæti hans skömmu síðar. Talið er að Blackmore eigi um 145 börn.

Fjölkvæni er ein af grunnstoðum FLDS-söfnuðarins, sem klauf sig frá söfnuði mormóna á síðustu öld þegar almenni söfnuðurinn lét af fjölkvæni. 

Stjórnvöld í Kanada og Bandaríkjunum hafa sótt fjölmarga trúarleiðtoga innan kirkjunnar til saka fyrir fjölkvæni og barnaníð, þar á meðal hinn bandaríska FLDS-leiðtoga Warren Jeffs. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2011 fyrir kynferðislega misnotkun á tveimur stúlkum sem hann hafði tekið sér sem eiginkonur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×