Fótbolti

Freyr: Vonbrigði og svekkelsi í bland við reiði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, svekkt eftir tapið á móti Sviss.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, svekkt eftir tapið á móti Sviss. vísir/getty
Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu eru allar mjög svekktar og daprar yfir því að vera úr leik á EM 2017 í fótbolta á sama tíma og þær eru stoltar af því sem þær hafa lagt í verkefnið í Hollandi.

Íslensku leikmennirnir reyna vitaskuld að halda haus enda einn leikur eftir þar sem stefnt er á sigur en Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, viðurkenndi á blaðamannafundi í dag að lífið gæti verið betra þessa dagana hjá stelpunum okkar.

„Þegar maður setur sér háleit markmið veit maður innst inni að því fylgir ákveðin ábyrgð og því geta vonbrigði verið fylgifiskur þess að setja sér háleit markmið,“ sagði Freyr og lýsti líðan leikmanna þessa dagana:

„Það eru vonbrigði og svekkelsi í bland við reiði inn á milli,“ sagði hann.

Freyr ítrekaði þó að háleit markmið eru mikilvæg. Þori íþróttamenn ekki að ná árangri er íslenskt íþróttalíf ekki neitt lengur, sagði hann.

„Íslenskt íþróttalíf snýst um að þora og leggja meira á sig en aðrir. Það höfum við séð lengi,“ sagði Freyr.

„Maður verður bara taka vonbrigðunum þegar einhver úrslit falla ekki með þér. Við erum bara að safna orku núna líkamlega en eftir gærkvöldið held ég að við séum allir sammála um að leikmenn eru klárir í báta fyrir miðvikudaginn,“ sagði Freyr Alexandersson.

Upptöku frá fundinum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Enn þá skrefi á eftir þeim bestu

Stelpurnar okkar eru úr leik á EM. Skelfilegur laugardagur sá um það þar sem Ísland tapaði fyrir Sviss og fékk svo engan greiða frá Frakklandi. Litlu hlutirnir féllu ekki með Íslandi sem tapaði fyrir betri liðum.

Endurfundir í Hollandi

"Hann er stuðningsmaður Íslands,“ segir Brynjar Svansson, faðir Dagnýjar Brynjarsdóttur, sem er duglegur að klæða Hollendinga í bláar landsliðstreyjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×