Hafró leggst gegn leyfisveitingum til eldis í Íslafjarðardjúpi
Nýlegt áhættumat Hafró um eldi hefur valdið verulegum titringi. Vestfirðingar horfa vonaraugum til stórfelldrar aukningar í laxeldi, eins og til að mynda má sjá má á þessum skrifum Einars K. Guðfinnssonar, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva, þar sem hann vitnar í grein eftir Gísla Halldór. „Það er [...] augljóst að laxeldi verður einn af undirstöðuþáttunum í atvinnuuppbyggingu næstu ára á norðanverðum Vestfjörðum, líkt og suðurfjörðunum.“
En, áhættumat Hafrannsóknarstofnunar virðist ætla að setja strik í reikninginn. Þar er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna „mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða um sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem nú er um 10.000 tonn.“
Norskir laxaspekúlantar fordæmdir
Andstaða við stórfelld laxeldisáform hefur verið mikil og fer hún vaxandi. Þetta má meðal annars sjá í tveimur afdráttarlausum nýjum viðhorfsgreinum sem birst hafa á Vísi. Höfundar eru ómyrkir í máli og þann óskunda sem þeir telja að fylgi fyrirætlunum um stóraukið laxeldi við Íslandsstrendur.

Og íslenskufræðingurinn Gísli Sigurðsson er ekki síður afdráttarlaus í pistli sem birtist í dag og hefur vakið mikla athygli:
„Viðurkenndar rannsóknir á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á laxi hafa sýnt að lúsafaraldrar myndu leggjast á og drepa lax og silung í sjó vestra, saurmengun, fóður- og lyfjaleifar spilla æðarvarpi og fiskimiðum, sérstaklega skelfiski á borð við rækju, og sleppifiskar úr kvíunum blandast villta laxinum og eyða honum í öllum íslenskum ám, hringinn í kringum landið. Málið snýst ekki bara um einhverjar „sprænur í Djúpinu“ eins og stórkarlar að vestan láta hafa eftir sér,“ skrifar Gísli.
Hann átelur harðlega það hvernig hagsmunaaðilar láta: „Valdhrokinn og yfirgangurinn er svo mikill að um allt land hræðist fólk atvinnumissi ef það dirfist að tala máli náttúrunnar og hagsmuna þeirra fjölmörgu sem hafa afkomu sína og lífsánægju af því að henni sé ekki spillt.“
Alltaf einhverjir sem eru á móti breytingum
Þegar Vísir náði tali af bæjarstjóranum í Ísafirði var hann á ferðalagi um skosku hálöndin. „Það er auðvitað alltaf einhver ákveðinn hópur sem er á móti tilteknum breytingum, einhverjir á móti fiskeldi, virkjunum og þú getur alltaf fundið eitthvað nýtt og það er einhver ákveðinn hópur sem er á móti því. Það er fínt, það koma fram gagnstæð sjónarmið,“ segir Gísli.

Ekkert stórmerkilegar laxveiðiár
Gísli Halldór segir að bæjarstjórar á Norðvestfjörðum almennt sammála um að skoða verði heildarmyndina og þeir telja laxinn heilt yfir hólpinn vegna þeirrar svæðaskiptingar sem er á landinu. En, einkum stendur til að auka eldi á Vest- og Austfjörðum.
„Ég er ekki búinn að fá upprunavottorð um hversu heilagur laxinn í Ísafjarðardjúpi er en þetta gefur gott tilefni til að gera tilraunir með það sem nefnt hefur í einni matsskýrslum HG, að það yrði settur upp flokkari í ánum sem myndi meta og flokka eldisfisk frá. Mér finnst felast í þessu ákveðin tækifæri, þetta eru sennilega ekki stórmerkilegustu laxveiðiár landsins og felast ákveðin tækifæri til að koma upp þessum fullvörnum í ánum í Djúpinu, kjörið, að gera slíka tilraun.“
Gísli Halldór ítrekar að hann sé ekki búinn að sjá upprunavottorðið á þeim löxum sem leita í ár á Vestfjörðum, hversu merkilegir þeir eru í stóra samhenginu: „Einhverjir voru að segja að þeir hafi verið fengnir annars staðar að af landinu og settir þarna í árnar. Ég veit það ekki. En, það ber auðvitað að hafa það sem sannara reynist í því.“
Ekki Hafró að taka ákvörðun um örlög samfélagsins fyrir vestan
Gísli Halldór hefur ekki átt fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra eftir að matið frá Hafró kom fram. En, segir að það hafi komið fram í þeirra samskiptum áður að í eldinu felist ákveðin tækifæri.

„Svo er bara spurning hvernig sá arður skilar sér til samfélagsins. Og svo er það fiskeldið. Það verður að tryggja að samfélagið fái afgjöld af þessu eldi ef það á að eiga sér stað í okkar nágrenni fyrir utan þær tekjur sem koma beint af störfum í greininni og tengdri þjónustu.“
Úrtöluraddir og gagnrýni
Gísli segir að um verulega stórt mál sé að ræða. Og vill ekki gera of mikið úr því að sótt sé að Vestfirðingum ómaklega. Til séu margir hópar sem hafa mismunandi skoðanir á mismunandi málum. Og eðli máls samkvæmt koma þær flestar frá Reykjavík hvar flestir búa.
„Neinei, mér finnst ekkert halla á okkur. En, menn geta tekið því þannig. Við getum ekki rokið upp til handa og fóta við hverja rödd sem kemur fram.“
Nýverið birti Vísir frétt þar sem sagði af miklum pirringi Vestfirðinga vegna andstöðu Tómasar Guðbjartssonar læknis við fyrirhuguð virkjunaráform fyrir vestan, nánar tiltekið við Rjúkandifoss. Í kjölfarið ræddi Vísir við Hafdísi Gunnarsdóttur varaþingmann Sjálfstæðisflokksins sem sagði að það væri þverpólitísk samstaða Vestfirðinga að vera orðnir verulega þreyttir á röddum af höfuðborgarsvæðinu, alltaf þegar til stæði að gera eitthvað í atvinnumálum Vestfirðinga.
Pirringur í Vestfirðingum
Gísli Halldór segir það örugglega rétt að til staðar sé pirringur. „Það er sammannlegur þáttur að pirra sig á því þegar maður heyrir ólíkar skoðanir. En ég held að það eigi við um einhvern fjölda Reykvíkinga einnig. Það verður að skoða þessi mál í því ljósi að í nokkra áratugi hafa samgöngur og innviðir á Vestfjörðum verið vanræktir stórlega. Skortur á uppbyggingu á þeim. Þegar fólk sér stór og álitleg atvinnutækifæri bjóðast þá verður það spennt og þegar maður er orðinn spenntur er erfitt að heyra úrtöluraddir og gagnrýni. Við verðum bara að taka því.“
Bæjarstjórinn á Ísafirði segir það afar mikilvægt að láta þetta ekki snúast um höfuðborg gegn landsbyggð. Tilviljun hefur að einhverju leyti ráðið búsetu fólks og líklegast að teknu tilliti til fólksfjölda sé að gagnrýni komi úr höfuðborginni.
Að gera eitthvað annað orðið þreytt
„Nú veit ég ekkert um það hvað Lækna-Tómasi finnst um fiskeldi. En, ákveðið sjónarmið er orðið þreytt. Það verður bara að segjast.
Og margir Vestfirðingar eru orðnir afar þreyttir á þeim röddum sem segja að við „ættum bara að gera eitthvað annað“,“ segir bæjarstjórinn.En, enginn komi fram með raunhæfar hugmyndir hvað megi verða sjálfbært og sé raunhæft í atvinnumálum.
„Síðasta sem heyrðist var að við ættum að búa til þjóðgarð á Ströndum og græða rosa mikið á því. Það er enginn að benda á hvernig eða hversu sjálfbært það er fyrir samfélag og náttúru að breyta Ströndum í gullna hringinn? Ég veit ekki hvort fólki finnst það smartara en ein lítil rafstöð eða eldi út í firði? Ég hef líka heyrt að mörgum Íslendingum ofbjóði vöxtur í ferðaþjónustu og sá ágangur sem því fylgir. Ábendingar um að við eigum að gera eitthvað annað, þær eru þreyttar.“