Skoðun

Norskir eldisrisar bjargi landsbyggðinni

Gunnlaugur Stefánsson skrifar
Íslenskir umboðsmenn norskra eldisrisa boða nú að laxeldið bjargi búsetunni á landsbyggðinni. Það sögðu stjórnendur Samherja og Granda ekki þegar þeir ráku umfangsmikið fiskeldi á Austfjörðum. Þeir þekktu áhættuna og leyfðu sér ekki að beita skrumi í áróðri. Samherji batt miklar vonir við eldið og byggði t.d. stórt laxasláturhús á Norðfirði og vandaði til allra verka. En vandamálin af völdum náttúrunnar auk umtalsverðra slysasleppinga urðu til þess að eldið var lagt af.

Nú koma norskir eldisrisar aðþrengdir vegna slæmrar reynslu af eldisiðjunni fyrir lífríkið á þeirra heimaslóðum og heimta ókeypis afnot af íslenskum sjó í von um skjótfenginn gróða. Í fyrstu var fullyrt að eldið skaði ekki lífríkið. Niðurstöður vísindamanna eins og Erfðanefndar landbúnaðarins leiða annað í ljós og telja stóraukið fiskeldi hafi ófyrirséðar afleiðingar og ráðleggja stöðvun á útgáfu leyfa. Eldistækni með opnum sjókvíum er nú talin úrelt í Noregi og bönnuð þar í nýjum eldisfjárfestingum. Þá er gripið í síðasta hálmstráið og boðað að laxeldið bjargi landsbyggðinni og sjálfsagt sé að fórna minni hagsmunum fyrir stærri.

Hvaða minni hagsmunir eru hér í húfi? Það er hin óspillta náttúra sem við teljum til einstakra gæða. En það er einmitt landsbyggðarfólkið umfram aðra sem ber ábyrgð á að nýta þessi gæði af sjálfbærni og varðveita af virðingu. Viljum við fórna þeim gæðum í skiptum fyrir skjótfenginn gróða norskra eldisrisa? Það væri þó reisn yfir því, ef sveitarstjórnir eldissvæða og umhverfisstofnanir settu skilyrði um að allt eldi verði með ófrjóum fiski í lokuðum og sjálfbærum kerfum eins og víðast er nú krafist í nágrannalöndum. Myndum við leyfa geymslu kjarnorkuúrgangs í íslenskum fjörðum fyrir offjár í boði ef bjargi búsetu og lífskjörum á landsbyggðinni um ókomna framtíð?

En hvað verður ef endir af ævintýrum verður sá sami og Samherji og Grandi reyndu? Dettur nokkrum manni í hug að norskum eldisrisum þyki þá ofurvænt um íslenskt landsbyggðarfólk?

Höfundur er sóknarprestur
Skoðun

Skoðun

Eins og…

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.