Innlent

Mjög ólíklegt að tekin verði skýrsla af Thomasi Møller á þriðjudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/vilhelm
Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Frederik Møller Olsen hefst í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 9:15 á þriðjudag.

Áformað var að hefja aðalmeðferðina á því að yfirheyra Thomas sjálfan en hann er ákærður fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana þann 14. janúar síðastliðinn.

Nú er hins vegar útlit fyrir að ekki verði hægt að yfirheyra Thomas þar sem enn er beðið eftir matsgerð þýsks réttarmeinafræðings.

Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, segir í samtali við Vísi að hún telji afar ólíklegt að matsgerðin verði komin fyrir þriðjudaginn og því verði ekki hægt að yfirheyra Thomas, en fyrst var greint frá því á vef Morgunblaðsins að hugsanlegar tafir gætu orðið á málinu vegna þessa.

Kolbrún segir að enn sé stefnt að því að taka skýrslur af skipverjum á Polar Nanoq en skipið verður í höfn hér á landi næstkomandi þriðjudag. Kolbrún segist reikna með að taka þá skýrslur af sjö til átta skipverjum.

Aðspurð hvenær aðalmeðferðinni verði síðan framhaldið segir hún að stefnt sé á það í lok ágúst. Þá ætti skýrsla réttarmeinafræðingsins að liggja fyrir og hægt verður að taka skýrslu af Thomasi fyrir dómi.


Tengdar fréttir

Aðalmeðferð í máli Thomasar Møller eftir mánuð

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn grænlenska skipverjanum Thomasi Møller mun hefjast þann 18. júlí klukkan 9:15. Þetta var ákveðið við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×