FH er komið áfram í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir 2-0 sigur á Víkingi frá Götu í Færeyjum í kvöld.
FH vann þar með 3-1 samanlagt en fyrri leiknum í Kaplakrika lauk með 1-1 jafntefli.
Skotinn Steven Lennon skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu á 79. mínútu og Þórarinn Ingi Valdimarsson innsiglaði síðan sigurinn í uppbótartíma.
Andreas Olsen hjá Víkingi úr Götu fékk rautt spjald á 78. mínútu leiksins og því spiluðu FH-ingar manni fleiri síðustu tólf mínútur leiksins.
Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir FH enda tryggir félagið sér mikla peninga frá UEFA með því að komast áfram í þriðju umferðina.
FH-ingar mæta annaðhvort Zrinjski Mostar frá Bosníu eða Maribor frá Slóveníu í næstu umferð en seinni leikur þeirra fer fram á morgun.
Maribor vann fyrri leikinn 2-1 á útivelli og er því í mjög góðri stöðu. Það er því langlíklegast að FH-ingar séu á leiðinni til Slóveníu í næstu viku.
