Erlent

Fleiri vilja kjósa aftur um Brexit

Sæunn Gísladóttir skrifar
Frá mótmælafundi á ársafmæli kosningar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Frá mótmælafundi á ársafmæli kosningar um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Vísir/AFP
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Opinium vill 41 prósent Breta kjósa aftur um útgöngu þjóðarinnar úr Evrópusambandinu. Frá því að Bretar kusu að yfirgefa ESB í júní 2016, í svokölluðum Brexit-kosningum, hefur stuðningur við að kjósa aftur aldrei verið meiri.

Meirihlutinn vill þó ekki kjósa á ný eða 48 prósent. Tólf prósent aðspurðra sögðust ekki vita hvort þeir vildu kjósa aftur eða ekki. Af þeim sem kusu að vera áfram í Evrópusambandinu í fyrra vildu 69 prósent kjósa á ný en 82 prósent þeirra sem kusu að yfirgefa Evrópusambandið í fyrra vilja ekki nýjar kosningar.

Nýverið hófust Brexit-viðræður milli fulltrúa Bretlands og Evrópusambandsins. Bretland mun þó ekki formlega yfirgefa Evrópusambandið fyrr en í mars árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×