Venus bar sigur úr býtum þegar hún mætti Elise Mertens í fyrstu umferð einliðaleiks kvenna í dag, 7-6 og 6-4.
Williams komst í fréttirnar á dögunum þegar 78 ára maður lést tveimur vikum eftir umferðarslys þar sem Williams ók í veg fyrir bíl mannsins. Kona hans var farþegi í bílnum en hlaut ekki lífshættuleg meiðsli.
Lögreglan í Flórída segir að Williams hafi verið í órétti en þar sem að um slys hafi verið að ræða er ólíklegt að hún verði ákærð. Fjölskylda mannsins hefur hins vegar í hyggju að kæra og leita skaðabóta.
„Það eru engin orð til að lýsa því hversu hræðilegt þetta er. Ég er algjörlega orðlaus,“ sagði Williams í dag eftir að blaðamenn spurðu hana út í slysið. Hún fór afsíðis en sneri aftur stuttu síðar og svaraði nokkrum spurningum til viðbótar en um tennisviðureign dagsins.
„Tennis er stóra ástin í lífi mínu. Þessi íþrótt veitir mér ánægju. Það er ekki hægt að undirbúa sig fyrir allt í lífinu.“