Innlent

Umferðaröngþveiti við Reynisfjöru

Jakob Bjarnar skrifar
Reynisfjara er einn af vinsælustu ferðamannastöðunum á Íslandi og þar myndast mikil örtröð einkum milli klukkan tvö og fimm á hverjum degi.
Reynisfjara er einn af vinsælustu ferðamannastöðunum á Íslandi og þar myndast mikil örtröð einkum milli klukkan tvö og fimm á hverjum degi. visir/vilhelm
Ragnar Indriðason, sem starfar við ferðaþjónustu á Vík, birti myndbandsbrot á Facebook sem hann tók upp nú áðan og sýnir mikla röð sem myndast hefur við þjóðveginn. Fólk er að koma til að skoða sig um í Reynisfjöru sem þarna er.„Það er sprenging þetta sumarið,“ segir Ragnar í samtali við Vísi. Það vantar ekki örtröðina. „Það hefur verið mikið en nú er þetta að springa upp í andlitið á okkur. Ég taldi mest 127 bíla og 11 rútur við Fjöruna. Á sama tíma.“

Ragnar segir þetta með hinum mestu ólíkindum og fólkið í sveitinni viti varla hvaðan á sig stendur veðrið. Það er á milli klukkan tvö og fimm sem holskeflan gengur yfir. „Íslendingarnar eru ekkert farnir að hreyfa sig að ráði og svo bætast þeir við. Ótrúlegt. Fólk sem kemur hingað í heimsókn spyr hvað er eiginlega í gangi hérna?“Stakkaskiptin sem orðið hafa á samfélagsgerðinni í Vík eru mikil. Halla Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Svörtu fjörunnar, sem er veitingastaður við Reynisfjöru, og hún segir að það sé fínt að gera hjá.„Það er alltaf mikill mannfjöldi hér. Nú í lok júní. Áttum við ekki von á þessu? Ég held það,“ segir Halla og lýsir miklum breytingum sem orðið hafa á Vík í Mýrdal, hvar hún ólst upp; fædd og uppalin í Mýrdalnum. „Vík er ekki lengur litla þorpið okkar. Það er liðin tíð. Nú veit maður ekki einu sinni hverjir búa í Víkinni, eru starfandi hjá fyrirtækjum hér, tímabundnir verkamenn eða ferðafólk. Maður skýst ekki út í búð og reddar í matinn á fimm mínútum. Það er löngu liðin tíð. Nú er ekki auðn og tóm í búðinni af því að ekki eru viðskipti heldur af því að þau eru svo mikil og allt rifið út,“ segir Halla.Bæði hafa þau orð á því að mikil þörf sé orðin á því að gerð sé bragarbót á aðstæðum við Reynisfjöru, þá í því sem snýr að bílastæðum. Ef einn leggur út í vegarkant þá leggur annar þar líka og þá er röðin fljót að myndast. Með tilheyrandi slysahættu.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.