Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - ÍBV 3-1 | Eyjamenn réðu ekkert við Andra Rúnar | Sjáðu mörkin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Spútniklið Grindavíkur vann góðan 3-1 sigur á liði ÍBV á Grindavíkurvelli í dag. Þeir eru enn í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Valsmönnum sem náðu sér einnig í sigur í dag. 

Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti, en fengu kalda vatnsgusu í andlitið þegar markamaskínan Andri Rúnar Bjarnason skorar strax á fjórðu mínútu leiksins. Grindvíkingar bættu svo tveimur mörkum við og voru yfir í leikhléi, 3-0.

Gestirnir frá Vestmannaeyjum hættu þó aldrei að sækja og náðu þeir að klóra í bakkann á 60. mínútu með marki frá varamanninum Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. ÍBV var meira með boltann í seinni hálfleik og náðu að skapa sér aðeins af hálffærum, en ekkert sem ógnaði Kristijan Jajalo í marki Grindavíkur. 

Af hverju vann Grindavík?

Heimamenn skoruðu mark snemma leiks sem var gríðarlega mikilvægt fyrir þá. Þeir gátu strax bakkað aðeins og leyft Eyjamönnum að sækja og beitt á þá skyndisóknum, sem þeir gerðu. Þeir náðu svo að skora tvo mörk til viðbótar í fyrri hálfleik og þá var róðurinn orðinn heldur harður fyrir ÍBV.

Þrátt  fyrir að hafa legið undir svolítilli pressu mest allan síðari hálfleikinn þá var vörn Grindvíkinga þétt og var í raun ekki mikil hætta á að gestirnir næðu að stela stigum..



Hverjir stóðu upp úr?

Andri Rúnar Bjarnason var áfram á markskónum og setti tvö mörk, ásamt því að vera duglegur að atast í öftustu línu Eyjamanna. Hann var ekki mjög áberandi í seinni hálfleik en náði nokkrum sinnum að skapa smá usla. 

Aron Freyr Róbertsson og Gunnar Þorsteinsson voru duglegir á miðjunni fyrir Grindvíkinga og voru mikið í að atast í Eyjamönnum.

Kaj Leo var einna sprækastur gestanna, sérstaklega í seinni hálfleik, og sótti mikið. Þá voru varamennirnir Gunnar Heiðar og Alvaro Montejo duglegir í að sækja fyrir Eyjamenn.

Hvað gekk illa?

ÍBV náði ekki að nýta sér það hversu mikið þeir voru með boltann. Þeir sóttu mikið í seinni hálfleik en náðu ekki að koma sér í nein opin marktækifæri. Heilt yfir var spilamennska Eyjamanna þó alls ekki slæm og margt jákvætt sem þeir geta tekið úr þessum leik.

Hvað gerist næst?

Níunda umferðin er leikin næstu helgi, þá fara Grindvíkingar í heimsókn í Kópavoginn þar sem þeir mæta Breiðabliki. Blikar voru fyrir þessa umferð í áttunda sæti deildarinnar með níu stig.

ÍBV tekur svo á móti Íslandsmeisturum FH á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. FH-ingar hafa ekki verið allt of sannfærandi í byrjun sumars og eru eins og er í fimmta sæti með 10 stig. 

Einkunnir

Grindavík: Kristinn Jajalo 7, Sam Hewson 7, William Daniels 6 (89. Marínó Axel Helgason), Gunnar Þorsteinsson 8, Alexander Veigar Þórarinsson 7, Milos Zeravica 6 (61. Hákon Ívar Ólafsson 7), Jón Ingason 6, Brynjar Ásgeir Guðmundsson 7, Aron Freyr Róbertsson 8, Andri Rúnar Bjarnason 8* (maður leiksins).

ÍBV: Halldór Páll Geirsson 6, Matt Garner 5 (46. Gunnar Heiðar Þorvaldsson 8), Hafsteinn Briem 6, Avni Pepa 6, Pablo Punyed 7, Kaj Leo í Bartalsstvou 8, Mikkel Maigaard Jakobssen 7 (65. Atli Arnarson 7), Sindri Snær Magnússon 6, Jónas Tór Næs 7, Arnór Gauti Ragnarsson 7 (71. Alvaro Montejo Calleja), Felix Örn Friðriksson 7.

Gunnar Þorsteins: Erum með nógu mikil gæði til að geta siglt þessu heim

Fyrirliði Grindavíkur, Gunnar Þorsteinsson, var að vonum sáttur eftir leikinn.

„Við erum með svo mikil gæði fram á við, og þéttir til baka, að við getum siglt þessu heim. Við þurftum bara þrjú, fjögur færi og þrjú mörk. Þetta var ekkert spes í seinni hálfleik en við allavega sigldum þessu heim.“

„Það hafa mörg lið legið á okkur undir restina í sumar, og við höfum allavega hingað til staðið það af okkur,“ sagði Gunnar aðspurður hvort hann hafi verið hræddur við pressu Eyjamanna í lokin.

Hann viðurkennir þó að það hafi farið um hann þegar gestirnir skoruðu. 

„Ég vinn með Drauma Jolla, og hann sagði við mig á föstudaginn að við myndum klára þetta og þetta væri ekkert stress,“ bætir fyrirliðinn við kátur.  

 

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBVvísir/eyþór
Kristján Guðmunds: Slæm mistök eru of dýr.

Við gerum vond mistök í upphafi leiks og þau kosta okkur allt, allt of mikið,“ voru fyrstu orð Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara ÍBV, eftir leikinn. Hann bætir við að eftir á að hyggja sé hann heilt á litið ánægður með leik sinna manna, baráttuna sem þeir sýndu og að liðið hafi aldrei gefist upp. 

Kristján segir mikilvæg mistök hafa ráðið úrslitum.

„Það eru þessi móment hjá okkur í leikjum, við fáum á okkur eitt, tvö í svona hrinu. Það hefur gerst hjá okkur tvisvar áður í sumar.“

Það hversu lítið af færum Eyjamenn ná að skapa sér var ekki mikið að trufla þjálfarann. Þeir náðu að skapa sér eitt dauðafæri í fyrri hálfleik sem þeir gátu ekki skorað úr og svo voru þeir að skapa aðeins fram á við í seinni hálfleik þrátt fyrir að skora bara eitt mark. 

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir
Óli Stefán: Léttir að sigra gott lið ÍBV

Það var létt yfir þjálfara Grindvíkinga eftir leik.

„Við settum þennan leik upp sem crucial leik upp á framhaldið. Við erum að mæta ótrúlega öflugu liði og svolítið tricky eftir að hafa verið að spila við þrjá risa að mæta, ja ég ætla að leyfa mér að segja, ótrúlega flottu ÍBV liði,“ sagði Óli Stefán Flóventsson.

„Jú, ég hafði áhyggjur, ég hef alltaf áhyggjur,“ sagði Óli þegar blaðamaður spurði út í pressu Eyjamanna í seinni hálfleik.

„Það er rétt að það lá á okkur í seinni hálfleik, og við höfum oft rætt það að í gegnum tímabilið og í gegnum leiki erum við ekki alltaf á góðum köflum.“

Það er oft erfitt að stilla hausinn þegar liðið fer í seinni hálfleikinn 3-0 yfir, viðurkennir Óli Stefán. Liðið datt strax í að verjast og kom sér í hættulega stöðu, en náðu þó að halda fegnum hlut.

Sindri Snær: Þeir nýta þrjá sénsa af fjórum

„Við gerðum fjögur stór mistök í fyrri hálfleik sem þeir nýta þrjá sénsa af fjórum og það er ástæðan fyrir að við töpum í dag,“ sagði fyrirliði ÍBV, Sindri Snær Magnússon.

Hann var súr eftir leikinn og að vonum ekki ánægður með niðurstöðuna. 

Sindri er bjartsýnn á komu Íslandsmeistaranna til Eyja næstu helgi og ætlar liðið sér að snúa við blaðinu og sækja þrjú stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira