Erlent

Ríkisstjórn loks mynduð í Makedóníu eftir tveggja ára limbó

Atli Ísleifsson skrifar
Zoran Zaev er nýr forsætisráðherra Makedóníu.
Zoran Zaev er nýr forsætisráðherra Makedóníu. Vísir/AFP
Makedónska þingið samþykkti í gær nýja ríkisstjórn Zoran Zaev, formanns Jafnaðarmanna, með naumum meirihluta. Alls lýstu 62 þingmenn af 120 stuðningi við stjórnina.

Djúp stjórnmálakrísa hefur verið í landinu síðustu tvö ár þar sem ekki hefur verið starfandi ríkisstjórn í landinu frá árinu 2015 þegar Nikola Gruevski sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar hneykslismáls.

Gjorge Ivanov, forseti Makedóníu, fól Zaev að mynda ríkisstjórn fyrir tveimur vikum. Í ræðu á þinginu í gær sagðist Zaev ætla að setja efnahagsumbætur í forgang, vinna gegn spillingu og vinna áfram að því að gera landið að aðildarríki bæði Evrópusambandsins og NATO.

Pattstaða hefur verið í makedónskum stjórnmálum allt frá þingkosningunum í desember síðastliðinn, þar sem þjóðernisflokkurinn VMRO-DPMNE náði inn flestum mönnum á þing, aðeins fleirum en Jafnaðarmannaflokkurinn SDSM. VMRO-DPMNE mistókst hins vegar að mynda meirihluta þar sem fyrrverandi samstarfsflokkar þeirra neituðu samstarfi.

Þingmenn VMRO-DPMNE eru nú í stjórnarandstöðu og hafa lýst yfir andstöðu við að Talat Xhaferi hafi verið gerður að forseta þingsins, en Xhaferi er úr albönskum minnihlutahópi landsins.

Ný ríkisstjórn Zaev er mynduð með öllum þremur albönsku flokkunum á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×