Íslenski boltinn

Bjarni Guðjónsson aðstoðar Loga hjá Víkingum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Ólafsson og Bjarni Guðjónsson rauðir og svartir í Víkinni í dag.
Logi Ólafsson og Bjarni Guðjónsson rauðir og svartir í Víkinni í dag. mynd/víkingur
Víkingar eru að gera breytingu á þjálfarateymi sínu í Pepsi-deild karla í fótbolta. Bjarni Guðjónsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Loga Ólafssonar en Dragan Kazic er að fá risastórt starf í heimalandinu.

Leikmönnum Víkings var tilkynnt þetta í hádeginu í dag en Bjarni var síðast aðalþjálfari KR í Pepsi-deildinni í fyrra. Hann var rekinn eftir slakt gengi í byrjun móts og þá tók Willum Þór Þórsson við.

Bjarni, sem varð tvívegis Íslandsmeistari sem leikmaður KR og einu sinni sem leikmaður ÍA, tók við KR-liðinu fyrir sumarið 2015 og skilaði því í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig.

Bjarni fór út í þjálfun árið 2013 eftir að hann lagði skóna á hilluna og tók þá við Fram en hann féll með liðið. Hann sagði þá upp hjá Fram en var ráðinn þjálfari KR þegar Rúnar Kristinsson hélt til Noregs.

Logi og Bjarni þekkjast vel en Logi fékk hann til KR á miðju sumri 2008 og gerði hann að fyrirliða. Þá var Logi einnig með hann sem ungan leikmann í meistaraflokki ÍA þegar Logi gerði Skagamenn að meisturum árið 1995.

Svartfellingurinn Dragan Kazic, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Víkings síðan í haust, lætur af störfum en samkvæmt fréttum þar í landi er hann að fá stærsta starfið í Svartfjallalandi.

Dragan er sagður vera að taka við meisturum Budocnost en Miodrag Vukotic, þjálfari liðsins, var látinn fara þrátt fyrir að gera liðið að svartfellskum meistara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×