Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Stjarnan 3-0 | Dýrkeypt mistök Stjörnumanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH. vísir/anton
FH sýndi sínar gömlu sparihliðar þegar Hafnfirðingar unnu afar sannfærandi 3-0 sigur á toppliði Stjörnunnar, toppliði Pepsi-deildar karla, á Kaplakrikavelli í kvöld.

Steven Lennon, Kristján Flóki Finnbogason og Þórarinn Ingi Valdimarsson skoruðu mörk FH í leiknum sem með sigrinum náði að minnka bilið í Stjörnuna í fjögur stig, í stað þess að missa Garðbæinga tíu stigum frá sér sem hefði verið tilfellið með sigri Stjörnunnar.

FH-ingar voru verðskuldað yfir eftir fyrri hálfleikinn. Grimmdin og ákefðin var mun meiri en FH hafði sýnt áður fyrr í sumar en Lennon braut svo ísinn á 23. mínútu er hann nýtti sér klaufalegan varnarvegg Stjörnunnar og skoraði beint úr aukaspyrnu úr þröngu færi.

Atli Guðnason komst þrívegis í átlitleg færi undir lok fyrri hálfleiks en náði ekki að nýta þau. Spilamennska FH var þó afar sannfærandi og Stjörnumenn heppnir að vera ekki meira en 1-0 undir eftir fyrri hálfleikinn.

Það var talsvert um meiðsli í liði Stjörnunnar og það sást berlega að liðið saknaði lykilmanna. Haraldur Björnsson markvörður, Daníel Laxdal, Eyjólfur Héðinsson og Guðjón Baldvinsson voru allir fjarverandi vegna meiðsla og munar um minna.

Sveinn Sigurður Jóhannesson stóð í marki Stjörnunnar og var ekki við hann að sakast í fyrsta markinu. Hann var hins vegar ekkert sértaklega öruggur í sínum aðgerðum og reyndist illa útfært úthlaup hans á 63. mínútu afdrifaríkt. Kristján Flóki Finnbogason nýtti sér það og skoraði auðvelt mark en fram að því hafði síðari hálfleikurinn verið nokkuð jafn og Stjörnumenn líklegir til að koma til baka.

En það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda eftir þetta og Þórarinn Ingi Valdimarsson slátraði leiknum endanlega á 81. mínútu er hann skoraði með fyrstu snertingu sinni í leiknum, eftir sendingu Atla - sem átti stórleik í kvöld.

Af hverju vann FH?

Þetta var FH-liðið sem knattspyrnuáhugamenn þekkja frá undanförnum árum og hafa ekki séð í upphafi Pepsi-deildar karla. Það var mun meiri barátta og ákefð í liði FH í kvöld og spilamennskan var á köflum mjög flott. Þeir héldu góðu skipulagi og refsuðu grimmilega fyrir klaufaleg mistök Stjörnumanna.

Hverjir stóðu upp úr?

Margir í liði FH áttu góðan leik í kvöld en Atli Guðnason sýndi frábær tilþrif í kvöld og spilaði vel fyrir félaga sína. Með Atla í svona ham er FH til alls líklegt, eins og margoft hefur sýnt sig. Kassim Doumbia spilaði vel í vörn FH sem hélt loksins hreinu og þeir Davíð Þór og Robbie Crawford voru flottir á miðjunni. Kristján Flóki var góður og þannig mætti áfram telja.

Hvað gekk illa?

Klaufagangur Stjörnunnar stendur upp úr. Varnarveggurinn klikkaði í fyrsta markinu og Sveinn Sigurður gerði sig sekan um ferleg mistök í marki númer tvö, sem gerði út um leikinn. Stjarnan saknaði lykilmanna í kvöld.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við landsleikjahlé og það kemur á góðum tíma fyrir Stjörnuna, þar sem að lykilmenn fá tækifæri til að jafna sig á meðan. FH fer í heimsókn til Grindavíkur í næstu umferð en Stjarnan mætir Víkingi Reykjavík.

Einkunnir leikmanna

FH (4-3-3): Gunnar Nielsen 7 - Jonathan Hendrickx 6, Bergsveinn Ólafsson 6, Kassim Doumbia 7, Böðvar Böðvarsson 6 - Davíð Þór Viðarsson 7, Robbie Crawford 7, Steven Lennon 7 - Guðmundur Karl Guðmundsson 6 (79. Þórarinn Ingi Valdimarsson -), *Atli Guðnason 8 (86. Atli Viðar Björnsson -), Kristján Flóki Finnbogason 7 (85. Pétur Viðarsson -).

Stjarnan (4-3-3): Sveinn Sigurður Jóhannesson 3 - Jóhann Laxdal 4, Óttar Bjarni Guðmundsson 5, Brynjar Gauti Guðjónsson 4, Jósef Kristinn Jósefsson 6 - Alex Þór Hauksson 5, Baldur Sigurðsson 7, Heiðar Ægisson 5 - Máni Austmann Hilmarsson 4 (46. Ólafur Karl Finsen 5), Hilmar Árni Halldórsson 7, Hólmbert Aron Friðjónsson 5.

Heimir: Jói Lax lenti í miklu basli með Atla
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.vísir/eyþór
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, lofaði frammistöðu sinna manna eftir sannfærandi 3-0 sigur á Stjörnunni í Pepsi-deild karla í kvöld. Stjarnan tapaði þar með sínum fyrsta leik í sumar.

„Það er erfitt að segja að þetta hafi verið algjör úrslitaleikur fyrir okkur,“ sagði Heimir. „En það er betra að vera fjórum stigum á eftir en tíu, það er ljóst.“

Hann segir að það hafi verið fyrst og fremst betra hugarfar sem hann sá hjá hans mönnum í kvöld, miðað við aðra leiki í sumar. „Það var ákveðin samstaða hjá mönnum og liðsheild sem skóp sigurinn. Menn voru tilbúnir að hjálpa hverjum öðrum. Þegar FH gerir það þá er það ávísun á góðan leik.“

„Þetta er það sem hefur vantað í síðustu leiki. Það kom sem betur fer í dag. En við þurfum að átta okkur á því að þetta er bara einn leikur. Nú þurfum við að vera klárir í næsta leik.“

Atli Guðnason átti stórleik í kvöld og Heimir hrósaði honum. „Atli Guðna er þeim eiginleikum gæddur að eftir því sem leikirnir verða stærri, þeim mun betri verður hann. Ég vissi allan daginn að hann væri að fara spila vel í þessum leik. Jói Lax lenti í þvílíku basli með hann í leiknum.“

Rúnar Páll: FH átti skilið að vinna
Rúnar Páll Sigmundsson.vísir/eyþór
Rúnar Páll Sigmundsson viðurkenndi eftir leik að FH-ingar hafi verið betri aðilinn þegar þeir unnu 3-0 sigur á hans mönnum í Stjörnunni í Pepsi-deild karla. Þar með tapaði Stjarnan sínum fyrsta leik í sumar.

„FH-ingar voru bara betri í þessum leik. Við byrjuðum reyndar seinni hálfleikinn af miklum krafti og vorum nálægt því a jafna en annað markið sem við fengum á okkur var mikið kjaftshögg. En FH átti skilið að vinna í kvöld,“ sagði Rúnar Páll.

Það voru margir menn meiddir í liði Stjörnunnar í kvöld og sjaldséð mistök þeirra bláklæddu í kvöld sem urðu liðinu dýrkeypt.

„Það spiluðu ellefu Stjörnumenn þennan leik frá byrjun og þeir stóðu sig ágætlega. Frammistaðan var ágæt og mikill kraftur í okkur. Ég hef ekkert út á það að setja. Leikmenn lögðu sig fram og það skiptir miklu máli.“

Rúnar Páll bendir þó á að Stjörnumenn hafi hingað til notað nánast sama liðið. „En menn komu inn og í þessar stöður og þeir leikmenn sem gerðu það fannst mér gera það vel.“

Ólafur Karl Finsen spilaði í 45 mínútur í kvöld og Rúnar Páll fagnaði því. Ólafur Karl er að koma til baka eftir erfið hnémeiðsli. „Hann var að spila heldur óvenjulega stöðu og mér fannst hann gera það ágætlega.“

Rúnar Páll segir að allir leikmenn sem voru meiddir í kvöld komi til baka í næsta leik. „Þeir verða allir með á móti Víkingum í næstu umferð.“

Baldur: Þurfum ekki að hengja hausBaldur Sigurðsson reyndi að líta á björtu hliðarnar þrátt fyrir 3-0 tap hans manna í Stjörnunni fyrir FH í kvöld.

„Þetta er búið að ganga vel hingað til og við þurfum ekki að hengja haus yfir því að tapa á einum erfiðasta útivelli landsins,“ sagði Baldur. „Þeir voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn án þess þó að ná að skapa sér rosalega mörg færi. Við komum svo af krafti út í seinni hálfleikinn en náðum því miður ekki að fylgja því eftir.“

Hann segir að annað mark FH-inga hafi verið kjaftshögg og að þeir hafi hálfpartinn gefist upp. „Þeir voru í slæmri stöðu í deildinni og voru greinilega staðráðnir í að vinna þennan leik. Við lögðum hart að okkur til að jafna leikinn í stöðunni 1-0 en fengum á okkur klaufalegt mark.“

Baldur segir að það þýði ekkert að gefa eftir þó svo að það hefði vissulega verið freistandi tilhugsun að komast tíu stigum fyrir ofan FH, sem Stjarnan hefði gert með sigri í kvöld.

„Það hefði verið sérstakt á þessum tímapunkti. Við ætluðum auðvitað að vinna en það gekk ekki upp í kvöld. Nú þurfum við bara að halda ótrauðir áfram.“

Atli: Baráttuna hefur vantað lengi
Atli Guðnason.vísir/eyþór
Atli Guðnason var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins þegar FH vann sannfærandi 3-0 sigur á Stjörnunni á Kaplakrikavelli í kvöld.

„Mér fannst við klárir frá byrjun. Við spiluðum virkilega vel í fyrri hálfleik og hefðum mátt skora fleiri mörk,“ sagði Atli eftir leikinn í kvöld.

„Við duttum aðeins niður í seinni hálfleik og markið hjá Flóka kom aðeins gegn gangi leiksins. En það var samt verðskuldað að vinna þennan leik og við kláruðum hann vel.“

FH-ingar refsuðu fyrir mistök Stjörnumanna í leiknum, sérstaklega í fyrstu tveimur mörkum sínum í kvöld. „Það hefur vantað baráttuna í okkur svolítið lengi. Við höfum verið nokkuð oft að komast yfir og missa það svo niður. Ég er virkilega sáttur við hvernig við kláruðum þennan leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira