Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Grindavík 0-1 | Sjóðheitur Andri Rúnar tryggði Grindvíkingum sigur á KR

Árni Jóhannsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason í leiknum í kvöld.
Andri Rúnar Bjarnason í leiknum í kvöld. Vísir/Andri Marinó

Grindvíkingar gerðu góða ferð í Vesturbæinn fyrr í kvöld þegar þeir unnu KR í sjöttu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Vítaspyrnan sem Andri Rúnar Bjarnason skilaði í netið réði úrslitum í lok leiksins en ekki eru allir á einu máli um hvort vítaspyrnan hafi átt rétt á sér. Grindvíkingar taka vítaspyrnunni samt fagnandi og fara heim með stigin þrjú. Þeir gulklæddu tylla sér þar með á topp deildarinnar ásamt Val og Stjörnunni með 13 stig en sökum markatölu eru þeir skráðir í þriðja sætið.

KR-ingar voru að vonum ósáttir við að fá á sig víti svo seint í leiknum en Willum Þór Þórsson þjálfari hafði orð á því í viðtali að fjórði dómari hafði verið örlagavaldur í leiknum þar sem hann kallaði aukaspyrnu á KR-inga sem gestirnir nýttu til að ná í vítið. 

Afhverju vann Grindavík?
Stutta svarið er að þeir fengu vítaspyrnu í lok leiksins sem Andri Rúnar Bjarnason skoraði úr en Beitir Ólafsson sem er nýkominn í lið KR var með hendi á boltanum en náði ekki að klóra hann framhjá stönginni. 

Skipulag Grindvíkinga ríghélt líka, sem og KR reyndar líka, en mjög fá færi litu dagsins ljós á báða bóga en þau færi sem KR náði að setja á markið varði Kristijan Jajalo vel í markinu.

Hvað gekk illa?
Sköpun færa hjá báðum liðum gekk mjög illa í kvöld en sökum þess að bæði lið voru búin að lesa hvort annað í þaula þá gáfu þau fá færi á sér. Til marks um það sást mjög lítið til Óskars Arnars Haukssonar, sem fékk mjög lítið pláss til að athafna sig og Andra Rúnars sem fékk úr mjög litlu að moða í teig KR-inga þangað til hann fékk vítið.

Leikurinn var annars mjög jafn og ekki leiðinlegur á að horfa en bæði lið reyndu að sækja eins og þau gátu en lykilsendingar og skotfæri sem hefðu getað orðið runnu út í sandinn oftar en ekki.

Besti maður vallarins
Kristijan Jajalo fær þann heiður að vera besti maður vallarins en eins og áður sagði varði hann þau fá skot sem KR-ingar náðu á markið mjög vel ásamt því að grípa vel inn í nokkrum sinnum. Í blálokin fengu KR-ingar hornspyrnu sem Indriði Sig. náði að skalla á markið og þurfti Jajalo að henda sér alveg út við stöng til að ná að blaka boltanum fram hjá og þar með bjarga öllum þremur stigunum.

Hvað gerist næst?
Engan óraði fyrir því í vetur eða þegar nær leið mótinu að Grindvíkingar væru jafnir að stigum við Val og Stjörnuna á toppi deildarinnar þegar sex umferðir hefðu verið spilaðar en þannig er nú staðan í dag. Í næstu viku fá þeir Íslandsmeistara FH í heimsókn og blaðamaður veit ekkert hvernig hægt er að spá í þann leik. FH-ingar virðast vaknaðir en Grindvíkingar eru í gífurlegu stuði þessa dagana og til alls líklegir.

KR þarf að jafna sig fljótt á þessum gífurlegu vonbrigðum sem leikurinn í kvöld var sem og byrjun deildarinnar en þeir sitja í 7. sæti með sjö stig og mínus einn í markatölu þegar rúmur fjórðungur af mótinu hefur verið spilaður. Þeir fara næst til Vestmannaeyja og etja kappi við heimamenn sem eru með jafnmörg stig og sæti neðar. Það verður þó að segjast að Vestmannaeyingar eru nískir á stigin á Hásteinsvelli og því mikil prófraun fyrir KR að fara þangað á þessum tímapunkti.

Einkunnir:
KR:
Beitir Ólafsson 6, Morten Beck 6, Arnór Sveinn Aðalsteinsson 5, Gunnar Þór Gunnarsson 6, Skúli Jón Friðgeirsson 6, Finnur Orri Margeirsson 5, Pálmi Rafn Pálmason 5, Tobias Thomsen 6, Indriði Sigurðsson 6, Kennie Knak Chopart 5, Óskar Örn Hauksson 5.

Grindavík: Kristijan Jajalo 7 (Maður leiksins), Sam Hewson 5,William Daniels 5, Gunnar Þorsteinsson 5, Matthías Örn Friðriksson 6, Milos Zeravica 5, Brynjar Ásgeir Guðmundsson 5, Björg Berg Bryde 6, Aron Freyr Róbertsson 5, Andri Rúnar Bjarnason 7, Jón Ingason 6.

Vísir/Stefán

Willum Þór Þórsson: Fjórði dómarinn greip í taumana
Þjálfari KR var að vonum gífurlega vonsvikinn með úrslit kvöldsins. Og spurði hann blaðamann fyrir viðtalið hvort fjórði dómari hefði verið boðaður í viðtal en hann hefði ráðið úrslitum leiksins. Hann fór samt yfir leikinn fyrst þegar hann var spurður út vítaspyrnu dóminn.

„Þetta er auðvitað mjög sárt en þessi leikur var mjög jafn og í járnum. Skipulagið í fyrirrúmi hjá báðum liðum og hvorugt liðið vildi gefa færi á sér og reyna að klára þennan leik. Bæði lið gerðu þetta mjög vel, lágu til baka og voru þolinmóð og unnu vel fyrir sínu. Þetta var því býsna sárt að fá á sig víti í lokin og lítill tími til stefnu að kvitta fyrir það“.

„Mér fannst við svo átt að fá víti í fyrri hálfleik þegar Thomsen er ýtt inn í teig. Það var samt ekkert hik á dómurunum þegar þeir fengu sitt víti dæmt. Svona er þetta bara, þegar er stutt á milli í þessu þá voru bæði lið að gera þetta mjög og lesa hvort annað í þaula eins og fótboltinn er í dag. Það voru ekki mörg færi að fara að líta dagsins ljós í dag en þeir fá víti hér í lokin og nýta það. Aðdragandi vítisins var náttúrlega ansi skrautlegur þegar við erum búnir að vinna boltann út á miðjum vellinum og þá tekur fjórði dómarinn að sér að dæma aukaspyrnu sem var mjög athyglisvert. Dómarinn var ekki að fara að flauta á þetta en fjórði dómarinn ákvað að grípa í taumana og dæma“.

Willum var spurður út í andann í liði sínu en þessi byrjun hefur klárlega verið vonbrigði enda stefndi KR á topp deildarinnar og sjö stig eftir sex umferðir er mjög rýr uppskera.

„Auðvitað eru þetta ekki eins mörg stig og við vonuðumst eftir en andinn er fínn. Við erum í góðu standi en erum ekki að uppskera eins og við vildum“.

Markmenn liðsins hafa meiðst mikið undanfarið en Beiti Ólafsson var fenginn til liðs við félagið til að stoppa í gatið sem hefur myndast og var Willum mjög ánægður með hans framlag í dag.

„Beitir var frábær í dag og flott að fá hann inn í þetta en nú fáum við góðan tíma til að vinna í okkar málum en það er alveg ljóst að í svona jöfnum leikjum er mikilvægt að ná að landa þeim en það kemur að því“.

Óli Stefán Flóventsson: Enn ein þrjú stigin
„Það eru enn ein þrjú stigin og þeim fögnum við vel“, sagði þjálfari Grindavíkur þegar honum var tjáð að þeir væru tæknilega séð á toppi deildarinnar en sagði síðan um leikinn: „Þetta var náttúrlega gríðarlegur liðssigur við héldum alveg ofboðslega í skipulagið okkar þar sem við vorum búnir lesa þá vel og loka á þeirra styrkleika og svo þegar við unnum boltann þá vorum við drullu hættulegir og vorum að ógna“.

Óli var spurður hvort vítaspyrnudómurinn sem tryggði Grindavík stigin hafi verið réttur sagðist hann halda það.

„Ég held að þetta hafi verið réttur dómur en annars fannst mér Andri Rúnar ekki fá það sem hann átti skilið í dag þar sem þeir fengu svoleiðis að hanga á honum allan leikinn. Svo fáum við loksins dæmt rétt með okkur í lokin og þá fáum við vítið upp úr því en hann vann vel úr ekki svo miklu. Þetta er Andri Rúnar í hnotskurn. Hann er svo hættulegur að eitt móment sem hann fær og það breytir leikjum“.

Óli Stefán sagði að hann væri ekki byrjaður að spá í einhverjum markmiðum á þessum tímapunkti en hann var spurður að því hvort Grindavík væri ekki að standa sig betur en þeir meira að segja þorðu að vona.

„Við erum ekkert komnir á markmiðin, ég hef sagt það áður að eitt stig úr hverjum leik sem þýðir 22 stig er það fyrsta markmiðið sem við höfum augun á áður en við förum að spá í eitthvað annað“.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.