Fótbolti

Aron Einar: Króatíska miðjan sú besta sem ég hef mætt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, segir að miðja króatíska landsliðsins sé sú besta sem hann hafi mætt.

Aron Einar og Jóhann Berg Guðmundsson voru sérfræðingar í setti í tengslum við beina útsendingu Stöðvar 2 Sport frá úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gær.

Landsliðsmennirnir fóru yfir úrslitaleikinn og ræddu svo við Ríkharð Óskar Guðnason um leikinn gegn Króatíu á Laugardalsvelli eftir viku.

„Við megum ekki tapa þessum leik, það er bara þannig,“ sagði Aron Einar en með sigri jafnar Ísland Króatíu að stigum á toppi I-riðils undankeppni HM 2018.

„Við erum að fá stórgott lið á Laugardalsvöll sem við erum búnir að gera að ákveðinni gryfju. Þetta er frábært lið með bestu miðju sem ég hef spilað við í landsleik. Þetta verður erfiður leikur en það er allt hægt í þessu.“

Einn af miðjumönnum króatíska landsliðsins, Luka Modric, var meðal bestu manna vallarins í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær. Modric lagði t.a.m. þriðja mark Real Madrid upp fyrir Cristiano Ronaldo.

Á bekknum hjá Real Madrid sat svo annar króatískur miðjumaður, Mateo Kovacic. Hinir miðjumennirnir í króatíska hópnum spila með liðum eins og Barcelona, Inter og Fiorentina.

Í framlínu Króatíu er svo Mario Mandzukic sem skoraði mark Juventus í úrslitaleiknum í gær.

Króatar unnu fyrri leikinn gegn Íslandi í Zagreb með tveimur mörkum gegn engu. Alls hafa þjóðirnar mæst fimm sinnum. Króatar hafa unnið fjóra leiki og einu sinni hefur orðið jafntefli. Markatalan er 11-1, Króatíu í hag.


Tengdar fréttir

Aston Villa hjálpaði Heimi með Birki

Heimir Hallgrímsson sagði frá því á blaðamannafundi í dag að landsliðsþjálfarinn hafi fengið góða hjálp frá enska félaginu Aston Villa við að það að gera Birki Bjarnason leikfæran fyrir leik Íslands og Króatíu í undankeppni HM.

Heimir sendi knattspyrnustjórum strákanna tóninn

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, ætlar ekki að gefa neitt eftir í viðskiptum sínum við knattspyrnustjórna félaganna sem íslensku landsliðsmennirnir spila með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×