Fótbolti

Turan réðst á blaðamann og hætti svo í landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Takk fyrir og bless. Turan spilar ekki aftur fyrir Tyrkland.
Takk fyrir og bless. Turan spilar ekki aftur fyrir Tyrkland. vísir/getty
Arda Turan, leikmaður Barcelona og tyrkneska landsliðsins, missti stjórn á skapi sínu í flugi í gær og ræðst á tyrkneskan íþróttafréttamann.

Turan var í kjölfarið rekinn úr tyrkneska hópnum og hann gekk enn lengra með því að segjast ætla aldrei aftur að spila fyrir landsliðið.

Turan var ósáttur við grein blaðamanns um launadeilu leikmanna tyrkneska liðsins við knattspyrnusamband þjóðarinnar fyrir EM.

„Segðu mér varst þú þarna með okkur er þú skrifaðir þessa frétt? Hvern bað ég um pening? Talaðu. Segðu okkur frá þessu. Hver fékk þig til þess að skrifa um þetta,“ öskraði Turan á íþróttafréttamanninn Bilal Mese sem er reynslumikill.

Fjölmiðlar fengu að ferðast með landsliðinu og það kunni Turan ekki að meta.

„Hverslags land er þetta. Þeir hleypa þér um borð í vélina. Þeir sem hleyptu þér um borð mega fara til helvítis. Þú ert helvítis aumingi og fyrr hætti ég í landsliðinu en að leyfa þér að drulla yfir mig. Þú ert bara málpípa forseta knattspyrnusambandsins.“

Eftir að hafa urðað yfir Mese greip Turan fast um háls íþróttafréttamannsins og þurfti her manna til þess að draga Turan í burtu.

Turan lýsti því yfir í dag að hann væri hættur í landsliðinu og mun því ekki spila gegn Íslandi er liðin mætast í Tyrklandi í byrjun október.

Þetta er mikið áfall fyrir tyrkneska liðið þar sem Turan er potturinn og pannan í leik liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×