Innlent

Áfrýjun til Hæstaréttar ástæða þess að bræðurnir ganga lausir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bræðurnir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar mál þeirra var tekið fyrir þar.
Bræðurnir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar mál þeirra var tekið fyrir þar. vísir/anton
Bræðurnir Marcin Wieslaw Nabakowski og Rafal Marek Nabakowski sem eru í haldi lögreglu grunaðir um aðild að manndrápi í Mosfellsdal í gærkvöldi hlutu í febrúar dóm fyrir skotárás í Breiðholtinu í ágúst síðastliðnum. Þeir ganga hins vegar lausir þar sem ríkissaksóknari áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar sem ekki hefur kveðið upp endanlegan dóm í málinu.

„Það er þannig að ef þú ert ákærður og færð dóm í héraði þá annað hvort unir þú dómi og ákæruvaldið unir dómi og þá er næsta skref afplánun. Í hinn stað þá geta náttúrulega bæði þeir sem eru dæmdir og ákæruvaldið skotið dómnum til Hæstaréttar í áfrýjun og þá er beðið með afplánun refsingar þar til endanleg niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir þannig að réttaráhrif dómsins koma ekki fram,“ segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, í samtali við Vísi.

Sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps sem var grundvöllur varðhalds

Annar bræðranna, Marcin, var í gæsluvarðhaldi frá 6. ágúst 2016 og þar til dómur féll þann 28. febrúar síðastliðinn. Hinn bróðirinn, Rafal, sat í gæsluvarðhaldi frá 8. ágúst 2016 til 30. nóvember 2016.

Aðspurður hvort að alvarleiki brota skipti ekki máli í þessu samhengi, það er varðandi það hvort fólk hefji ekki afplánun fyrr en dómur Hæstaréttar gengur sé mál undir áfrýjun segir Ólafur:

„Það er í einstaka tilvikum hægt að vista fólk í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna í allra alvarlegustu málunum þar til dómur gengur annað hvort í héraði eða Hæstarétti. Það var gert með annan af þessum aðilum fram að uppkvaðningu dóms í héraði vegna þess að hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hann var svo sýknaður af því broti í dómi héraðsdóms sem var grundvöllurinn fyrir gæsluvarðhaldinu. Þar með voru forsendurnar brostnar fyrir því að hafa hann áfram í gæslu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×