Innlent

Bræðurnir dæmdir í fangelsi vegna skotárásarinnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. vísir/anton
Tveir bræður voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdir í fangelsi fyrir að hafa skotið úr haglabyssu fyrir utan verslun í Breiðholti í ágúst í fyrra. Annar bróðirinn fékk 2 ára og 8 mánaða fangelsisdóm og hinn 2 ára og 7 mánaða fangelsi.

Mennirnir tveir, Rafal Nabakowski og Marcin Nabakowski, voru báðir sakfelldir fyrir hættubrot með því að hafa stefnt lífi og heilsu tiltekinna aðila auk óþekkra vegfarenda í hættu með því að skjóta úr byssunni. Marcin var sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps.

Þá voru þeir báðir sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og sitt hvort umferðarlagabrotið.

Bræðurnir skutu úr afsagaðri haglabyssu föstudagskvöldið 5. ágúst í fyrra fyrir utan Leifasjoppu í Breiðholti. Þeir voru í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir leit lögreglu. Þá voru þeir jafnframt sakaðir um líkamsárás en hún átti sér einnig stað fyrir utan Leifasjoppu.

Þeir voru sagðir hafa lamið mann ítrekað í höfuðið með kylfu og spýtu og var öðrum þeirra gefið að sök að hafa skvett vatnsblönduðu ammoníaki í andlitið á manninum, sem hlaut mar á höfðu og ætingu á augnloki og augnsvæði, að því er segir í ákæru.

Jafnframt voru mennirnir tveir ákærðir fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa í júlí í fyrra hótað manni til þess að aka bíl sínum á tiltekinn stað á höfuðborgarsvæðinu vegna deilna um bifreiðarviðskipti, en bræðurnir voru sýknaðir af þeim ákærulið.

Rafal fékk 2 ár og 8 mánaða fangelsi og Marcin 2 ár og 7 mánaða fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×