Erlent

Corbyn ýjar að því að Verkamannaflokkurinn muni afnema skólagjöld í breskum háskólum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jeremy Corbyn á kosningafundi á dögunum.
Jeremy Corbyn á kosningafundi á dögunum. vísir/getty
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, hefur ýjað að því að flokkurinn muni gefa loforð um það fyrir komandi þingkosningar í Bretlandi að afnema skólagjöld í háskólum landsins.

Corbyn sagði á kosningafundi í menntaskóla í Leeds í dag að hann væri með ýmislegt í vasanum varðandi háskólanámið en að hann gæti ekki gefið neitt upp fyrr en stefnuskrá flokksins yrði opinberuð í næstu viku.

„Þið verðið að bíða eftir stefnuskránni. Ég veit að þið eruð örvæntingarfull og ég er með ýmislegt í vasanum en því miður þá get ég ekki sagt ykkur frá því. Er það í lagi? Er ykkur sama? Getið þið beðið vegna spennu?“ sagði Corbyn á fundinum í dag aðspurður um hvað Verkamannaflokkurinn ætlaði að gera varðandi skólagjöld í breska háskóla.

Skólagjöld mega nú vera í mesta lagi 9250 pund á ári í háskólum á Englandi sem gera 1,2 milljónir. Fyrir þingkosningarnar 2015 lofaði Verkamannaflokkinn að lækka skólagjöldin niður í 6000 pund árið og á fundinum í dag útilokaði Corbyn ekki að flokkurinn myndi aftur berjast gegn gjöldunum.

Orð Corbyn eru í samræmi við orð flokksbróður hans, John McDonnell, sem sagði á kosningafundi á dögunum að Verkamannaflokkurinn vildi að skólakerfið allt yrði ókeypis á sama hátt og heilbrigðisþjónusta er gjaldfrjáls í gegnum National Health Service – NHS.

„Við viljum að menntun verði gjaldfrjáls hvenær sem þú þarfnast hennar á lífsleiðinni. Það þýðir að hætta að skera niður á grunnskólastiginu. [...] Og já það þýðir að berjast á móti skólagjöldunum í háskóla svo að börnin okkar þurfi ekki að vera með miklar skuldir á bakinu í framtíðinni,“ sagði McDonnell.

Nánar má lesa um málið á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×