Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Stjarnan 1-3 | Fyrsti sigur Stjörnunnar í Kópavogi í 23 ár

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson með boltann.
Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson með boltann. vísir/anton
Stjarnan komst upp á topp Pepsi-deildar karla eftir 1-3 sigur á Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Garðbæinga í Kópavogi síðan 1994.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 57. mínútu kom Brynjar Gauti Guðjónsson Stjörnunni yfir. Fjórum mínútum síðar bætti Guðjón Baldvinsson öðru marki við. Hann fylgdi þá á eftir, eftir að Gunnleifur Gunnleifsson varði vítaspyrnu Hólmberts Aron Friðjónssonar.

Aron Bjarnason minnkaði muninn á 72. mínútu en Hilmar Árni Halldórsson gulltryggði sigur Stjörnunnar þegar hann skoraði þriðja mark liðsins í uppbótartíma.

Afhverju vann Stjarnan?

Að lokum var þetta verðskuldaður sigur hjá Stjörnunni en Garðbæingar stýrðu ferðinni vel og lokuðu á helstu sóknaraðgerðir Blika sem var á köflum flatur.

Miðverðirnir tveir, Daníel Laxdal og Brynjar Gauti, stóðu vakt sína vel og áttu Blikar aðeins eitt skot á markið í leiknum þegar Aron minnkaði muninn.

Hægt er að tala um ef og hefði þegar litið er á mark Guðjóns Baldvinssonar en frákastið af vítaspyrnu Hólmberts hefði auðveldlega endað hjá Blika eða skotið farið framhjá en í staðin voru Blikar skyndilega lentir 0-2 undir á aðeins nokkrum mínútum.

Blikar færðu sig framar og settu pressu á Stjörnuna á lokamínútunum en urðu um leið fámennir aftar á vellinum og verður að hrósa fyrirliða Stjörnunnar, Baldri Sigurðssyni, fyrir baráttuna upp á boltann á lokamínútunum þegar þriðja markið kom.

Hverjir stóðu upp úr?

Guðjón Baldvinsson verðskuldaði markið sitt fyrir dugnað en hann var sívinnandi og alltaf að atast í miðvörðum Blika til að gefa þeim engan frið.

Þá átti varnarlína Stjörnunnar heilt yfir flottan leik í dag og þar fyrir framan voru Eyjólfur og Alex duglegir að brjóta upp spilið áður en það kom inn að markteignum.

Hvað gekk illa?

Sóknarlína Blika átti í erfiðleikum með að skapa sér færi og kom lítið sem ekkert út úr framherjanum Hrvoje Tokic í dag enda fékk hann litla þjónustu af vængjunum.

Martin Lund átti þó fínustu spretti inn á milli en það er áhyggjuefni fyrir Blika að Tokic hefur ekki litið út fyrir að vera þessi 10-15 marka framherji sem liðið þarf í upphafi móts.

Hvað gerist næst?

Blikar eiga framundan leik gegn Fylkismönnum sem hafa unnið báða leiki sína í Inkasso-deildinni í upphafi sumars og gæti það hentað liðinu vel að gleyma Pepsi-deildinni og tapleikjunum þremur í smá stund.

Þjálfaramál liðsins verða væntanlega klár á næstu dögum en Sigurður Víðisson, þjálfari Blika í kvöld, átti von á lausn á næstu dögum en hann var fámæltur er hann var spurður út í þessi mál eftir leik.

Garðbæingar eru aftur á móti á flottu róli með sjö stig eftir þrjár umferðir og mæta Þrótti frá Vogum í bikarnum í vikunni áður en þeir mæta nýliðum KA í toppslag á Samsung-vellinum að viku liðinni.

Sigurður: Ánægður með allt nema úrslitin, strákarnir spiluðu frábærlega„Við stóðum okkur allaveganna frábærlega, ég var rosalega ánægður með strákanna í dag,“ sagði Sigurður Víðisson, þjálfari Blika eftir tapið í kvöld.

„Þeir stóðu sig hreint út sagt frábærlega í kvöld, ég er ánægður með allt saman í kvöld nema úrslitin sjálf. Það er ekki spurning að ég tek jákvæða punkta út úr þessum leik,“ sagði Sigurður sem  

„Við reyndum bara að spila skynsamlega og lögðum þetta þannig upp. Leikplanið var að ganga vel þar til við fáum á okkur þessi tvö skítamörk.“

Blikar komust inn í leikinn á ný með marki Arons Bjarnasonar á 72. mínútu en Stjarnan innsiglaði sigurinn með marki á lokamínútu uppbótartíma.

„Við vorum búnir að opna allt þarna undir lokin í von um jöfnunarmark og það var líklegt að það myndi detta inn mark öðru hvoru megin. Ég er ekki að svekkja mig á því þar sem við vorum að leitast eftir marki til að jafna leikinn.“

Hann var fámæltur er spurt var út í framhald hans sem og þjálfaramál Blika.

„Ég hef ekki hugmynd hvernig þetta endar, það koma vonandi einhver svör á eftir. Ég er ekki í stjórn og hef ekkert heyrt,“ sagði Sigurður að lokum.

Rúnar Páll: Gríðarlegur léttir þegar Hilmar kláraði þetta„Þeir lágu á okkur þarna undir lokin og það var gríðarlegur léttir þegar Hilmar kláraði þetta,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sigurreyfur að leikslokum.

„Það var mjög erfitt að horfa upp á þessar síðustu mínútur en það er mjög sterkt að koma hingað og taka öll stigin þrjú.“

Rúnar var ekkert að velta sér upp úr þjálfaramálunum í aðdraganda leiksins.

„Við vorum ekkert að pæla í þessu, við pældum bara í okkur og hvað við gætum gert. Við vildum spila góðan fótbolta í kvöld og það gekk ágætlega á köflum,“ sagði Rúnar og bætti við:

„Fyrri hálfleikurinn var jafn en við fengum hættuleg færi sem við áttum að nýta okkur betur. Svo settum við tvö mörk á stuttum tíma og klárum þetta hérna í lokin.“

Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar á heimavelli Blika í 23 ár.

„Það var mikillkraftur í okkur, við vildum þetta enda langt síðan við höfum unnið hérna. Það er mjög sterkt að koma hingað og taka öll stigin þrjú.“

Andri Rafn: Mikil vonbrigði að fá ekkert úr þessum leik„Það eru vissulega mikil vonbrigði að fá ekkert út úr þessu, mér fannst leikurinn vera í jafnvægi þar til þeir skora þessi mörk,“ sagði Andri Rafn Yeoman, miðjumaður Blika, svekktur að leikslokum.

Aðeins nokkrar mínútur liðu frá fyrsta marki Blika þar til vítaspyrna var dæmd á Kópavogsmenn sem annað markið kom upp úr.

„Við það kemur kafli sem menn missa aðeins fókus, detta úr skipulagi og reyna að gera eitthvað annað og við fáum á okkur annað mark sem var týpískt fyrir lið þegar hlutirnir eru ekki að detta með manni. Það gerir í raun út um leikinn þótt okkur hafi tekist að minnka þarna muninn.“

Blikar náðu að pressa Garðbæinga undir lokin en náðu ekki að kreista fram jöfnunarmark.

„Við gáfumst ekki upp, héldum áfram og náðum að gera þetta að leik aftur þar til þeir setja þetta mark á okkur hérna undir lokin. Það er jákvætt að sjá að menn höfðu enn trú á þessu þótt við værum undir.“

Andri sagði leikmenn lítið hafa velt sér upp úr þjálfaramálunum undanfarna daga.

„Menn eru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir en við horfðum bara á næsta leik og reyndum að koma klárir í hann. Við getum lítið verið að einbeita okkur að öðru á milli leikja.“

Blikar eru stigalausir eftir þrjár umferðir en framundan er verkefni í bikarnum þar sem Blikar mæta Fylki.“

„Stigin telja auðvitað jafn mikið hvenær sem þau koma og það eru bara þrjár umferðir eru búnar. Við verðum bara að fara inn í næsta leik og byrja að safna stigum. Við eigum næst leik gegn Fylki í bikarnum og stemmingin í kringum bikarinn hjálpar okkur vonandi inn á rétta braut.“

Breiðablik 4-3-3: Gunnleifur Gunnleifsson 6, Viktor Örn Margeirsson 4 (71. Sólon Breki Leifsson), Michee Efete 5, Damir Muminovic 6, Davíð Kristján Ólafsson 6 - Andri Rafn Yeoman 5, Gísli Eyjólfsson 6 (81. Ernir Bjarnason), Arnþór Ari Atlason 5 - Höskuldur Gunnlaugsson 5, Martin Lund Pedersen 6, Hrvoje Tokic 4 (71. Aron Bjarnason).

Stjarnan 4-3-3: Haraldur Björnsson 5 - Jóhann Laxdal 6, Brynjar Gauti Guðjónsson 7, Daníel Laxdal 7, Jósef Kristinn Jósefsson 6 - Alex Þór Hauksson 6, Eyjólfur Héðinsson 6, Baldur Sigurðsson 6 - Hólmbert Aron Friðjónsson 5 (70. Heiðar Ægisson 5), Hilmar Árni Halldórsson 6, Guðjón Baldvinsson 7, maður leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.