Erlent

Kólerufaraldur í Jemen

Atli Ísleifsson skrifar
Frá sjúkrahúsi í jemensku höfuðborginni Sanaa.
Frá sjúkrahúsi í jemensku höfuðborginni Sanaa. Vísir/AFP
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Sanaa, höfuðborg Jemen, en kólerufaraldur hefur nú dregið fjölda fólks í borginni til dauða.

Spítalar í borginni, sem er á valdi Houthi-uppreisnarmanna, eru yfirfullir af smituðum einstaklingum og segir Rauði krossinn að fjöldi kólerutilfella hafi þrefaldast á aðeins einni viku. Nú séu tæplega níu þúsund manns smitaðir að því er talið er.

Borgarastríð og hungursneyð hefur geisað í Jemen undanfarin misseri sem auðveldar útbreiðslu veikinnar en samkvæmt starfsfólki Sameinuðu þjóðanna hafa tveir þriðju landsmanna ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni.

Yfirmaður hjá alþjóðanefnd Rauða krossins í Sanaa sagði á blaðamannafundi í gær að 115 manns hafi látist á hálfum mánuði frá lokum apríl.

Kólera er sýking í meltingarfærum en á síðustu árum hefur kólera víða komið upp, oftast í tengslum við slæma hreinlætisaðstöðu og ófullnægjandi aðgang að hreinu vatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×