Innlent

Ákvarðanir um að vísa börnum úr landi ekki nægilega vandaðar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ákvarðanir um að vísa börnum í hælisleit úr landi eru ekki nægilega vandaðar að sögn talsmanns hælisleitenda hjá Rauða kross Íslands. Það þarf að hraða málsmeðferð í málum þar sem börn eru fljót að skjóta rótum og aðlagast nýju samfélagi.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var sagt frá 6 manna fjölskyldu frá Alsír sem vísa á úr landi á næstu dögum. Þau sóttu um hæli í ágúst í fyrra vegna ofsókna í heimalandinu. Fjölskyldufaðirinn sagðist hafa mestar áhyggjur af börnunum sínum. Þeim liði vel hér á landi og væru búin að aðlagast samfélaginu, ættu vini og töluðu tungumálið, á þeim 9 mánuðum sem mál þeirra hefur verið til meðferðar.

Aðilar á borð við Unicef á Íslandi, Umboðsmann barna og Rauða krossinn hafa gagnrýnt stjórnvöld  fyrir að virða réttindi barna í hælismeðferð að vettugi.

„Við höfum verið að gagnrýna ákvarðanir útlendingastofnunar fyrir að vera ekki nægilega vel rökstuddar þegar það kemur að ákvörðunum sem sterta börn. Við höfum oft hnýtt í það að það séu settar fram staðlaðar setningar um að það sé búið að taka tillit til hagsmuna barnsins án þess að það sé í rauninni rökstutt frekar hvað felst í því, hvaða rannsókn hafi farið fram og hvernig sé komist að þeirri niðurstöðu,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, talsmaður hælisleitenda hjá Rauða krossinum og bætir við að þannig séu ákvarðanir Útlendingastofnunar ekki nægilega vandaðar þegar um börn er að ræða.

„Við myndum vilja sjá þetta nákvæmara og einstaklingsmiðaðara og það væri í raun fjallað um það sérstaklega til hvaða þátta hafi verið litið,“ segir Guðríður.

Guðríður segir að það sé algengt að börn sæki um hæli hér á landi ásamt fjölskyldum sínum en samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sóttu 250 börn um hæli á Íslandi í fyrra og þar af voru 18 þeirra fylgdarlaus. Ekki var hægt að fá upplýsingar um hve stórum hluta þeirra var vísað úr landi.

Guðríður bendir á að fjöldi barna í hælisleit í Evrópu sé að aukast og því sem mjög mikilvægt að vanda til verka.Það sé ýmislegt sem þurfi að gera betur þegar kemur að börnum í hælisleit. „Mikilvægasti punkturinn er að stytta málsmeðferð og setja þessi mál í ákveðin forgang. Óvissa er erfið fyrir alla og sérstaklega fyrir börn. Þau eru fljót að skjóta rótum og eignast vini,“ segir Guðríður Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×