Enginn Íslendingur var í sigurliði í þeim leikjum sem er lokið í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Tromsö sem gerði 1-1 jafntefli við Brann á heimavelli.
Jakob Orlov kom Brann yfir í upphafi seinni hálfleiks en Simen Wangberg jafnaði metin á lokamínútunni og tryggði Tromsö stig.
Viðar Ari Jónsson var ekki í leikmannahópi Brann en hann fékk lengra frí eftir landsleikina í síðustu viku.
Aron Elís Þrándarson, Adam Örn Arnarson og Daníel Leó Grétarsson voru allir í byrjunarliði Aalesund sem tapaði 3-1 fyrir Stabæk á útivelli. Ohi Anthony Omoijuanfo skoraði öll þrjú mörk Stabæk í leiknum.
Aron Elís og Adam spiluðu allan leikinn en Daníel Leó var tekinn af velli í hálfleik.
Ingvar Jónsson stóð á milli stanganna hjá Sandefjord sem tapaði á grátlegan hátt fyrir Lilleström á útivelli, 2-1.
Flamur Kastrati kom nýliðum Sandefjord yfir á 22. mínútu og þannig var staðan fram á 87. mínútu þegar Michal Skoda jafnaði metin. Joachim Solberg Olsen skoraði svo sjálfsmark þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og Lilleström fékk því öll stigin þrjú.
