Innlent

Mótmæltu lágum fjárveitingum til Hugarafls: „Þetta er algjör svívirða“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mótmælendur funduðu með fulltrúum úr velferðarráðuneytinu í dag en fyrir aftan standa þingmennirnir Gunnar Hrafn Jónsson og Einar Brynjólfsson.
Mótmælendur funduðu með fulltrúum úr velferðarráðuneytinu í dag en fyrir aftan standa þingmennirnir Gunnar Hrafn Jónsson og Einar Brynjólfsson. vísir/anton brink
Samtökin Hugarafl stóðu fyrir mótmælum við velferðarráðuneytið í dag vegna þeirrar fjárveitingar sem samtökunum er ætluð á þessu ári. Alls nemur fjárhæðin 1,5 milljónum króna sem forsvarsmenn Hugarafls telja alltof lítið þar sem samtökin þjónusta fjölda manns með geðraskanir á hverju ári en samtökin hafa verið starfandi frá árinu 2003.

Þingmenn Pírata, þeir Gunnar Hrafn Jónsson og Einar Brynjólfsson, mættu á mótmælin í dag en Gunnar Hrafn hefur lengi glímt við þunglyndi. Áður en þeir fóru til mótmælanna í dag tók Gunnar Hrafn til máls undir liðnum störfum þingsins á þingfundi sem hófst klukkan 13:30 í dag og vakti athygli á fjárveitingunni til Hugarafls.

„Ég þarf aðeins að skreppa úr húsi núna kl. 14, á eftir, af brýnni nauðsyn. Það eru mótmæli fyrir utan velferðarráðuneytið, það eru mótmæli af því að nú þegar er farið að bera á því að ríkisstjórnin sé að svíkja þau loforð og þau fyrirheit sem hún gaf um að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir í málum fólks með geðraskanir á Íslandi,“ sagði Gunnar Hrafn og bætti við að hann þekkti það af eigin raun að margoft sé búið að lofa fjölbreyttari og hagkvæmari úrræðum í geðheilbrigðismálum sem eigi að nýtast sem flestum.

Nú fáum við það sem blauta tusku í andlitið að hæstv. heilbrigðisráðherra, Óttarr Proppé, ætlar að skaffa samtökunum Hugarafli, sem hafa unnið áralangt og gott starf — m.a. aðstoðað mig, ég veit ekki hvort ég stæði hér í dag ef þeirra nyti ekki við — rétt rúm mánaðarlaun þingmanns til að sinna sínum tæplega 200 skjólstæðingum út heilt ár. Ég er satt að segja brjálaður yfir þessu. Þau rétt skrimtu í gegnum síðasta ár með 8 milljónir, nú á að bjóða þeim 1,5 milljónir til að vinna sitt starf. Það þýðir bara að starfsemin leggst í raun og veru af.  Ég krefst þess að menn geri sér grein fyrir að þeir eru að leika sér með mannslíf hérna. Það eru engin önnur úrræði fyrir þetta fólk, það eru engin önnur úrræði sem eru ódýrari. Þetta er ódýrasta úrræðið sem við höfum, annars endar þetta fólk inni í heilbrigðiskerfinu, sem er margfalt dýrara. Ég krefst þess að við fáum í staðinn árslaun þingmanns, 13 milljónir, til að reka þetta úrræði í ár og helst eitthvað meira á næsta ári. Þetta er algjör svívirða, frú forseti,“ sagði Gunnar Hrafn á þingi áður en hann hélt til mótmælanna.

Í tilkynningu frá Hugarafli segir að samtökin telji að með fjárveitingunni „gæti ójafnræðis í samanburði við önnur úrræði og vanvirðingar við Hugarafl sem hefur lagt gríðarlega af mörkum til geðheilbrigðiskerfisins undanfarin 14 ár. Send hafa verið mótmæli til allra þingmanna og beðið viðbragða frá ráðherrunum.“

Fjöldi manns mætti til að mótmæla.vísir/anton brink
Samtökin Hugarafl voru stofnuð árið 2003 og hafa veitt fjölda fólks með geðraskanir þjónustu og aðstoð í gegnum árin.vísir/anton brinkFleiri fréttir

Sjá meira


×