Fótbolti

Ísland einu sæti frá topp 20 á nýjum FIFA-lista en Lagerbäck niður fyrir Færeyjar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hækkar sig um tvö sæti á nýjum FIFA-lista sem var gefinn út í morgun. Norðmenn detta niður fyrir Færeyjar á fyrsta listanum eftir að Lars Lagerbäck stýrði norska landsliðinu í fyrsta sinn.

Ísland er nú í 21. sæti listans en var í 23. sæti á listanum sem var gefinn út í mars.

Íslenska liðið hóf nýtt ár í 21. sætinu en náði sínum besta árangri í sögunni þegar liðið sat í 20. sætinu á febrúarlistanum.

Þetta er því næstbesti árangur íslenska karlalandsliðsins á styrkleikalista FIFA.

Ísland kemst meðal annars aftur upp fyrir Holland sem fellur um heil ellefu sæti á listanum. Hollendingar eru núna í 32. sæti en voru einu sæti fyrir ofan Ísland á síðasta lista.

Íslenska liðið er áfram langhæst af Norðurlandaþjóðunum en Svíarnir hoppa upp um ellefu sæti og nálgast. Svíþjóð er nú í 34. sæti eða þrettán sætum á eftir Íslandi.

Danir lækka um þrjú sæti og detta út af topp 50. Þeir eru núna í 41. sæti.

Færeyingar hækka sig um fimm sæti og er núna í fjórða sæti af Norðurlandaþjóðunum í 77. sæti.

Lars Lagerback stýrði Norðmönnum í fyrsta sinn á dögunum en varð að sætta sig við 2-0 tap á móti Norður-Írlandi. Norska liðið lækkar um fimm sæti á listanum og er núna í 86. sæti.

Brasilíumenn eru nú komnir aftur á toppinn eftir sjö ára fjarveru. Þeir hafa ekki verið á toppi FIFA-listans síðan sumarið 2010. Brasilía tók toppsætið af nágrönnum sínum í Argentínu en Þjóðverjar eru áfram í þriðja sætinu.

Það má sjá allan listann með því að smella hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×