Lokun Silfru tók gildi klukkan níu í morgun og stendur til klukkan átta á mánudagsmorgun. Slysið í gær er tíunda alvarlega slysið í Silfru á síðustu sjö árum, en þar af eru fimm þeirra banaslys. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðargarðsvörður á Þingvöllum segir að tíðni alvarlegra slysa í Silfru á Þingvöllum geri það að verkum að grípa verði til aðgerða.

Maðurinn sem lést í gær var ferðamaður í skipulagðri ferð með fjölskyldu sinni. Hann var á sjötugsaldri og var við yfirborðsköfun þegar slysið átti sér stað. Alls eru níu fyrirtæki sem selja skipulagðar ferðir í Silfru. Ólafur Örn segir að öll þessi fyrirtæki vandi starf sitt mjög vel en grípa verði til aðgerða.
„Við gerum okkur engan leik að því að spilla þeim en nú er málið bara komið á það stig að það er ekki hægt að una við þetta lengur,“ segir Ólafur Örn sem mun kalla forsvarsmenn fyrirtækjanna til sín til þess að fara yfir stöðu mála.
Í morgun fundaði þjóðgarðsvörður með Samgöngustofu og umhverfisráðuneytinu. Fara á yfir verklag rekstraraðika og þær reglur sem gilda um þá sem stunda köfun og yfirborðsköfun í gjánni. Ólafur Örn segir að óvíst sé hvort að lokunin vari lengur en fram á mánudag eða hvort Silfra opni með nýjum skilyrðum.
Lögregla mun aðstoða þjóðgarðsverði við að framfylgja lokuninni.