Talið er að íslenski pilturinn, sem fannst látinn í hlíðum Table-fjall við Höfðaborg í Suður-Afríku í gær, hafi látist af slysförum.
Þetta segir Ezra October, yfirvarðstjóri hjá lögreglunni í Höfðaborg, í samtali við Vísi.
Pilturinn var nítján ára gamall og kom til Höfðaborgar 12. janúar síðastliðinn.
October segir hann hafa verið á göngu ásamt vinum sínum við Table-fjall á laugardag. October segir lögreglu telja að pilturinn hafi orðið viðskila við hópinn sökum slæms veðurs, en hvöss suðaustanátt var á fjallinu um helgina. Þegar vinum hans varð ljóst að hann hafði ekki skilað sér niður fjallið gerðu þeir þjóðgarðsvörðum viðvart sem ræstu strax út leitarflokka.
Fjallgöngumaður fann lík piltsins í Platteklip-gilinu við Table-fjall í gærmorgun. October segir lögreglu telja að pilturinn hafi hlotið höfuðáverka eftir fall í hlíðum fjallsins.
Lögreglan í Höfðaborg er nú með málið til rannsóknar og bíður niðurstöðu krufningar. Lögregla útilokar að dauða piltsins hafi borið að með saknæmum hætti.
Ezra October segir vini piltsins hafa gert fjölskyldu hans viðvart vegna málsins.
Hann segir ekki hægt að greina frá nafni piltsins að svo stöddu.
Dauðsföll af slysförum eru ekki óalgeng á Table-fjalli, en á árunum 2001 til 2011 létust alls 79 manns á fjallinu.
Talið er að pilturinn hafi orðið viðskila við vini sína sökum slæms veðurs

Tengdar fréttir

Íslenskur piltur fannst látinn í Suður-Afríku
Fannst látinn á Table-fjalli í Cape Town í gær.