Erlent

Íranar staðfesta eldflaugaskot

Samúel Karl Ólason skrifar
Varnarmálaráðherra Íran viðurkenndi í dag að eldflaug hefði verið skotið á loft í tilraunaskyni þar í landi um helgina. Hann neitar því þó að tilraunaskotið hafi brotið gegn samkomulagi Íran við stórveldi heimsins um kjarnorkuvopnaáætlun þeirra, né ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem bannar Írönum að þróa eldflaugar sem gætu borið kjarnorkuvopn.

Þetta er fyrsta tilraunaskot Íran frá því að Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna, en hann hefur lýst yfir andstöðu sinni við kjarnorkusamkomulagið svokallaða. Í kosningabaráttunni sagðist hann ætla að stöðva eldflaugatilraunir Írana.

Hossein Dehghan, varnarmálaráðherra Íran, segir þó að erlendir aðilar muni ekki hafa áhrif á varnarmál Íran. Skotið hafi ekki brotið gegn ályktun Öryggisráðsins, né kjarnorkusamkomulaginu.

Þá segir utanríkisráðherra Íran að ríkið muni aldrei notast við eldflaugar sínar til að ráðast á annað ríki.

Bandaríkin höfðu haldið því fram að Íran hefði skotið eldflaug á loft á sunnudaginn og hún hefði sprungið eftir að hafa flogið rétt rúma þúsund kílómetra. Bandaríkin hafa óskað eftir sérstökum fundi hjá Öryggisráðinnu vegna tilraunaskotsins.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að Bandaríkin muni ekki sitja aðgerðarlaus hjá og að tilraunaskot slíkra eldflauga sé „algerlega óásættanlegt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×