Innlent

Jóhanna Fjóla sett forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands

atli ísleifsson skrifar
Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Vísir/Pjetur
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur sett Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til eins árs, frá 1. febrúar 2017.

Jóhanna Fjóla er sett í embættið í fjarveru skipaðs forstjóra, Guðjóns S. Brjánssonar, sem tók sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingar að loknum síðustu þingkosningum. Jóhanna Fjóla var önnur tveggja umsækjenda sem lögskipuð hæfnisnefnd mat vel hæfa til að gegna starfinu.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að Jóhanna Fjóla hafi frá árinu 2012 verið framkvæmdastjóri hjúkrunar- og rekstrar við Heilbrigðisstofnun Vesturlands og árin 2010 – 2012 var hún verkefnastjóri þróunar- og gæðamála við sömu stofnun.

„Hún var verkefnastjóri hjúkrunar árin 2000 – 2009 en fyrir þann tíma starfaði hún við Sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún var m.a. hjúkrunarforstjóri um eins árs skeið.

Í mati hæfnisnefndar segir m.a. að Jóhanna Fjóla hafi mikla þekkingu og reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á stjórnun og áætlanagerð, auk umtalsverðrar reynslu af rekstri. Þá hafi hún sýnt á ferli sínum hæfni til að takast á við krefjandi verkefni þar sem m.a. reyni á mannleg samskipti og loks er í matinu getið um aðkomu hennar að stefnumótun og gerð þjónustusamninga auk þess að leiða ýmis umbótaverkefni á sviði heilbrigðisþjónustu. Jóhanna sé því mjög vel hæf til að gegna starfinu,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×