Innlent

Fjölmenni kvaddi Birnu

Snærós Sindradóttir skrifar
Fjölmargir voru viðstaddir útför Birnu.
Fjölmargir voru viðstaddir útför Birnu. vísir/anton Brink
Birna Brjánsdóttir var jarðsungin frá Hallgrímskirkju í gær. Athöfnin var öllum almenningi opin og töluverður fjöldi mætti til athafnarinnar. Þúsundir mættu í göngu til minningar um Birnu sem haldin var laugardaginn 28. janúar síðastliðinn.

Erfidrykkja Birnu fór fram í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þyrla Gæslunnar, en áhöfn hennar fann Birnu um hádegisbil þann 22. janúar, stóð fyrir utan skýlið. Fá bílastæði voru á svæðinu svo liðsmenn Landhelgisgæslunnar sáu um að ferja fólk sem þess þurfti frá bílastæðunum við Háskólann í Reykjavík og að flugskýlinu.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að aðstandendur Birnu hafi haft frumkvæði að því að Landhelgisgæslan hýsti erfidrykkjuna, sem búist var við fyrirfram að yrði mjög fjölmenn. „Við urðum auðvitað við því enda eru þetta mjög sérstakar aðstæður og Landhelgisgæslan tengdist málinu á nokkrum stigum þess.“

Sr. Vigfús Bjarni Albertsson jarðsöng Birnu. Á meðal laga sem flutt voru við útförina var frumsamið lag föður hennar, Brjáns Guðjónssonar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×