Erlent

Her Senegal ræðst til atlögu í Gambíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Adama Barrow sór embættiseið í dag og kallaði eftir því að her Gambíu stigi til hliðar þar til Jammeh væri farinn frá.
Adama Barrow sór embættiseið í dag og kallaði eftir því að her Gambíu stigi til hliðar þar til Jammeh væri farinn frá. Vísir/AFP
Hermenn Senegal hafa nú ráðist til atlögu í Gambíu. Markmið þeirra er að koma Adama Barrow, réttkjörnum forseta landsins, í embætti og er Senegal stutt af öðrum nágrannaríkjum Gambíu. Leiðtogar annarra ríkja vestur-Afríku leituðu eftir stuðningi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við aðgerðunum og fékkst það í dag.

Ráðið tók þó fram að það væri á móti átökum og vildi að málið yrði leyst friðsamlega.

Yahya Jammeh tók við völdum í landinu árið 1994 í tiltölulega friðsömu valdaráni. Andstæðingur hans, Adama Barrow, vann óvæntan sigur í forsetakosningum í desember. Jammeh hefur þo neitað að víkja en til stóð að Barrow tæki við völdum í dag. Í staðinn sór Barrow embættiseið í sendiráði Gambíu í Senegal í dag.

Barrow lýsti því svo yfir að hermenn Gambíu ættu að halda til í herstöðvum sínum og að komið yrði fram við þá sem veittu mótspyrnu sem uppreisnarmenn.

Þrátt fyrir hernaðaraðgerðirnar eru enn tilraunir til að leysa málið á friðsamlegum nótum.

Samkvæmt AFP fögnuðu stuðningsmenn Barrow og götum Banjul, höfuðborgar Gambíu, eftir að hann sór embættiseiðinn. Hermenn munu hafa fylgst með fagnaðarlátunum án þess að grípa inn í. BBC segir þó að þeir hafi verið fáir, en nú sé Banjul eins og draugabær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×