Fótbolti

HBStatz: Arnór klikkar ekki í hraðaupphlaupum og frákastar vel

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson er eini hægri hornamaðurinn í landsliðshópnum sem fer á HM í Frakklandi.
Arnór Þór Gunnarsson er eini hægri hornamaðurinn í landsliðshópnum sem fer á HM í Frakklandi. vísir/ernir
Arnór Þór Gunnarsson, hægri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, skoraði 3,7 mörk að meðaltali í sjö mótsleikjum strákanna okkar á síðasta ári, en hann nýtti 62 prósent skota sinna, þar af 67 prósent úr horninu.

Þetta kemur fram í tölfræðigreiningu handboltatölfræðisíðunnar HBStatz sem telur niður í heimsmeistaramótið í Frakklandi með því að fara yfir tölur strákannar okkar í mótsleikjum síðasta árs.

Aron Pálmarsson var fyrst tekinn fyrir þar sem mikilvægi hans fyrir liðið kom bersýnilega í ljós og í gær var tölfræði Rúnars Kárasonar, hægri skyttu Íslands, birt.

Sjá einnig:Utan vallar: Handboltaáhugafólk fékk óvænta veisluþjónustu í tölfræði

Arnór Þór skoraði 26 mörk í sjö mótsleikjum síðasta árs eða 3,7 mörk að meðaltali í leik. Hann þurfti 42 skot til að skora þessi 26 mörk sem gerir skotnýtingu upp á 62 prósent. Hann hitti 88 prósent skota sinna á markið en 26 prósent þeirra voru varin og aðeins tólf prósent fóru framhjá eða í varnarvegginn.

Skotnýting Arnórs Þórs úr hægra horninu var 67 prósent á síðasta ári þar sem hann skoraði 16 mörk úr 24 skotum. Aðeins 57 prósent skota hans á markið komu úr horninu.

Arnór Þór er góður í hraðaupphlaupum en hann skoraði úr öllum þremur skotum sínum úr hraðaupphlaupum á síðasta ári. Það vekur þó athygli að hraðaupphlaupin voru svona fá en þau voru aðalsmerki Íslands um árabil.

Hornamaðurinn knái, sem spilar með Bergischer í þýsku 1. deildinni, skoraði þrjú mörk að meðaltali í þremur sigurleikjum Íslands á síðasta ári en 4,25 mörk í tapleikjunum fjórum (3 á EM 2016, 1 í undankeppni EM 2018). Skotnýting Arnórs Þór var aðeins betri í tapleikjunum en sigurleikjunum (63 prósent á móti 60 prósentum) þannig ekki verður sagt að Akureyringurinn bogni við mótlæti.

Fram kemur í tölfræðigreiningu HBStatz að Arnór Þór er öflugur frákastari sem er vannýtt og vanmetin tölfræði í handbolta enda skila fráköst mjög oft marki eða vítakasti. Arnór tók 1,4 fráköst að meðaltali í mótsleikjunum sjö á síðasta ári.

Hér að neðan má sjá ítarlega greiningu á tölfræði Arnórs Þórs Gunnarssonar á árinu 2016 frá HBStatz sem allir ættu að fylgja á Facebook og Twitter nú þegar HM gengur í garð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×