Erlent

Obama-hjónin sögð plana stjörnum prýtt kveðjupartí

Birgir Olgeirsson skrifar
Barack og Michelle Obama.
Barack og Michelle Obama. Vísir/EPA
Barack Obama eru sagður ætla að kveðja embætti forseta Bandaríkjanna með rosalegri veislu annað kvöld þar sem hver stjarnan á fætur annarri er sögð ætla að heiðra hann með nærveru sinni.

Greint er frá því á vef Telegraph að tónlistarmennirnir Beyonce, Jay Z, Paul McCartney, Bruce Springsteen og Chance the Rapper séu á meðal þeirra sem munu mæta í þessa veislu sem er ætluð nánum vinum forsetans fráfarandi og stærstu styrktaraðilum hans.

Barack hafði sagt við People Magazine fyrir skemmstu að hann og Michelle Obama væru að plana kveðjupartíið í Hvíta húsinu sem færi í sögubækurnar.

Talsmenn Hvíta hússins hafa neitað að tjá sig um veisluna en Washington Post hefur greint frá því að innanbúðarmenn þar á bæ hafi nú þegar lekið boðslistanum og að á honum sé að finna tónlistarmanninn Usher, leikarann Samuel L. Jackson og spjallþáttadrottninguna Oprah Winfrey.

Því er einnig haldið fram að tónlistarmaðurinn Stevie Wonder, leikstjórinn JJ Abrams og leikstjórinn George Lucas verði á meðal boðsgesta.

Eftir kveðjupartíið mun Barack Obama ferðast til Chicago-borgar þar sem hann mun flytja kveðjuávarp sitt 10. janúar næstkomandi.

Þessar fregnir um þetta stjörnum prýdda kveðjupartí Obama koma á sama tíma og fjöldi tónlistarmanna hafa neitað að koma fram innsetningarathöfn Donalds Trump. Tónlistarmaðurinn John Legend sagði við breska ríkisútvarpið BBC í desember síðastliðnum að hann væri ekki hissa á því.

„Skapandi fólk á það til að hafna fordómum og hatri. Við erum frjálslyndari í hugsun. Þegar við sjáum einhvern tala fyrir aðskilnaði, hatri og fordómum, þá er ólíklegt að skapandi fólk vilji tengjast honum.“

Aretha Franklin söng þegar Barack Obama var settur inn í embætti í fyrsta skiptið en Beyonce gerði það í seinna skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×