Innlent

Gul viðvörun á sjö svæðum á landinu í dag

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Víða má búast við hríðum á heiðum og jafnvel lokunum.
Víða má búast við hríðum á heiðum og jafnvel lokunum. Veðurstofa Íslands
Á Veðurstofu Íslands kemur fram að svokölluð „gul viðvörun“ sé fyrir sjö svæði á landinu í dag. Umrædd svæði eru höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Strandir, Norðurland vestra og miðhálendi. Litirnir með miðla neyðarkerfi hjá Veðurstöfunni eru alls fjórir, grænn, gulur, appelsínugulur og rauður og rauð viðvörun er alvarlegasta viðvörunin.

Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir suðaustan 15-20 m/s með snjókomu í fyrstu en svo slyddu eða rigningu. Á Veðurstofunni er bent á að færð gæti spillst og þegar fer að rigna má megi búast við vatnselg og því rétt að hreinsa frá niðurföllum og ganga frá lausamunum sem gætu fokið.

Á Suðurlandi er spáð suðaustan stormi, 15-23 m/s. Í fyrstu er gert ráð fyrir snjókomu en síðan slyddu eða rigningu. Hríð gæti spillst víða og má búast við hríð á heiðum og jafnvel lokunum, eins og til dæmis Hellisheiði. Þá má búast við snörpum vindhviðum við fjöll.

Í Faxaflóa er spáð suðaustan átt 15-23 m/s. Snjókomu er spáð í fyrstu en síðan slyddu og rigningu. Færð gæti spillst víða og má búast við hríð á heiðum og jafnvel lokunum. Einnig má búast við vindhviðum yfir 40 m/s við fjöll eins og við Kjalarnes og Hafnarfjall.

Í Breiðafirði er spáð suðaustan 18-23 m/s. Í fyrstu er gert ráð fyrir snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Færð gæti spillst víða og búast má við hríð á heiðum og lokunum. Þá er tekið fram að búast megi við vindhviðum yfir 35 m/s við fjöll, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er spáð suðaustan stormi í kvöld, vindur frá 15-23 m/s. Slydda eða snjókoma í fyrstu en síðan rigning á láglendi. Færð gæti spillst víða á Vestfjörðum og búast má við hríð á heiðum og lokunum. Þá má búast við vindhviðum yfir 35 m/s við fjöll.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra er er spáð suðaustan stormi í kvöld og vindur frá 15-23 m/s. Slydda og snjókoma í fyrstu en síðar rigning á láglendi. Færð gæti spillst og búast má við hríð á heiðum og því gætu þær lokað um tíma eins og Holtavörðuheiði. Auk þess má búast við vindhviðum yfir 35 m/s við fjöll.

Um miðhálendið er spáð suðaustan stormi eða roki í kvöld, vindur á bilinu 20-25 m/s. Gert er ráð fyrir talsverðri hríð og skafrenning. Skyggni og ferðaveður gæti því verið mjög slæmt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×