Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi mun koma saman fyrir hádegi í dag til að ræða tilboð sem sjómenn lögðu fram í gær. Bundnar eru vonir við að tilboðið, sem sjómenn kalla lokatilboð, komi til með að leysa verkfallið en það hefur nú staðið yfir í tæpa tvo mánuði.
Samninganefndirnar tvær hyggjast funda vegna málsins síðar í dag en þær hafa ekki viljað tjá sig um innihald tilboðsins að öðru leyti en því að gerðar séu einhverjar tilslakanir, til dæmis um olíuviðmið.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að sjómenn væru tilbúnir til að gefa ákveðið mikinn slaka en að lengra væri ekki hægt að fara.

