Endapunktur malbiksins var áður við fiskiskipið í fjörunni í Skápadal í botni Patreksfjarðar. Í skrám Vegagerðarinnar heitir hann Örlygshafnarvegur en þennan veg aka þeir sem eru á leið á staði eins og Rauðasand, Örlygshöfn, Hænuvík, Breiðavík og Látrabjarg.
Fyrirtækið Borgarverk tók að sér verkið fyrir um 130 milljónir króna, sem fólst í að endurbyggja sex kílómetra vegarkafla með bundnu slitlagi frá Skápadal, um Rauðasandsgatnamótin og vestur fyrir bæinn Hvalsker. Þá verða eftir 37 kílómetrar ómalbikaðir að Látrabjargi.

„Þetta verður sjálfsagt ágætt þegar þetta verður búið. Það er nú ekki alveg búið. Það er bara búið að fara eina ferð með olíumöl hérna. Það á eftir að fara aðra,” segir Sigurbjörg Sigurbergsdóttir, húsfreyja á Hvalskeri.
-Verður þetta ekki allt annað og betra líf?
„Ahh. Ég veit það ekki. Ég kvíði vetrinum. Sumsstaðar verður vegurinn snjóþyngri inni í firði en hann hefur verið. Þeir færðu hann til og þá er hærra niður á hann. En það þykir sjálfsagt mörgum þetta gott.”
-En er mikil umferð hérna?
„Það er gríðarleg umferð. En hún er öðruvísi. Það er mikið meira af húsbílum heldur en venjulegum bílum.”

„Það er farið bara mikið af því og búið að keyra yfir mikið af þeim.”
-Er það af því að menn keyra þá hraðar?
„Menn sjá ekki nema þær sem fljúga. Menn sjá ekki ungana,” segir Sigurbjörg og segir ungana æfa sig að fljúga á veginum.
Og íbúum á Hvalskeri finnst ekki nóg að gert að hafa bara varúðarskilti Vegagerðarinnar um fuglavarpið. Þeir settu líka upp það sem Sigurbjörg kallar „þrífót” til að minna ökumenn á að draga úr hraðanum.
„Það er allt í lagi með útlendingana. Þeir sjá merkin. En það sér ekki sveitavargurinn. Og nágrannarnir á Patreksfirði. Þeir sjá ekki merkin sumir. Það er bara svoleiðis.”