Í frétt BBC er haft eftir lögreglu að maðurinn sem ráðist var á sé með sérþarfir og glími við andleg veikindi.
Á myndbandinu má heyra árásarmennina fara niðrandi orðum um bæði hvítt fólk og Donald Trump, auk þess að þeir notast við hníf til að skera hluta af höfuðleðri mannsins.
Lögreglustjórinn Eddie Johnson hefur lýst myndbandinu sem „viðbjóðslegu“ og að árásin kunni mögulega að flokkast sem hatursglæpur.
Lögreglu barst tilkynning um árásina í gær en hún átti sér stað í vesturhluta borgarinnar (West Side). Myndbandið er hálftími að lengd og má þar sjá árásarmennina skera fötin af fórnarlambinu, sem er átján ára að aldri, láta ösku úr sígarettu rigna yfir hann, þrýsta höfði hans upp að vegg með fæti og skera í höfuð hans.
Nokkur fjöldi fólks er í herberginu þar sem árásin á sér stað. Í öðrum myndböndum má einnig sjá manninn neyddan til að drekka úr klósettskál og segjast elska svart fólk á meðan hnífi er beint að honum.
Að sögn lögreglu er fórnarlambið í sama skóla og einn árásarmannanna. Maðurinn fannst ráfandi um götur Chicago eftir árásina, en talið er að honum hafi verið rænt allt að tveimur sólarhringum áður en árásin var gerð.