Vísir greindi frá því í lok nóvember að Umhverfisstofnun hafi borist tugir kvartana vegna lykt- og rykmengunar frá kísilverinu. Þá hafði að minnsta kosti einn einstaklingur greindist með efnabruna vegna reyksins. Í kjölfarið skrifuðu hundurðir manns undir áskorun um að fleiri kísilver rísi ekki í Helguvík vegna óánægju með hina nýgangsettu verksmiðju.
Þá sagði Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, lyktina hafa borist yfir bæinn þar sem nýræstur ofn hafi ekki verið nægilega heitur. Það vandamál átti að vera úr sögunni þegar ofninn yrði keyrður upp í fullt álag í lok nóvember. Kristleifur sagði jafnframt í samtali við fréttastofu þann 27. nóvember að fyrirtækið ætlaði að koma vinnustaðnum í sátt og samlyndi við samfélagið.
Í umfjöllun Stundarinnar er fullyrt að United Silicon hafi aldrei tekist að halda kjörhitastigi á ofninum, en hann var fyrst gangsettur þann 13. nóvember. Þar af leiðandi hafi þurft að brenna mun meira af timbri en áætlað var. Þar sem timbrið sé blautt verða til hættuleg og krabbameinsvaldandi efni þegar það er brennt.
Stundin hefur birt myndband þar sem starfsmenn United Silicon sjást hleypa eiturefnum út í andrúmloftið á vinnusvæði kísilversins. Myndbandið er tekið um miðjan desember og hefur þetta ítrekað verið gert og ávallt að næturlagi.
„Ef fólk vissi bara hvað færi hér fram þá væri löngu búið að loka þessari verksmiðju, það er engin spurning,“ segir ónafngreindur starfsmaður í samtali við Stundina, sem jafnframt sagði ástandið í kísilverinu vera áfellisdóm yfir eftirlitsstofnunum.
Ekki náðist í Umhverfisstofnun við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.