Vel á fjórða tug ábendinga og kvartana hafa borist Umhverfisstofnun á síðustu dögum vegna lykt- og rykmengunar frá kísilveri United Silicon í Helguvík.
Í frétt á vef Reykjanesbæjar segir að fulltrúar stofnunarinnar munu mæta á fund bæjarráðs næsta fimmtudag til að ræða málið og svara þeim spurningum og vangaveltum sem munu berast þeim frá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ.
„Bæjarráð ályktaði um málið á bæjarráðsfundi í gær og lýsti yfir áhyggjum sínum af menguninni. Bæjarráð fól bæjarstjóra að óska eftir skýrslu frá Umhverfisstofnun og fulltrúa frá henni á næsta bæjarráðsfundi.
Vel á fjórða tug ábendinga og kvartana hafa borist Umhverfisstofnun undanfarna daga vegna lykt- og rykmengunar frá kíliverinu. Þá hefur Umhverfisstofnun upplýsingar um að a.m.k. einn einstaklingur hafi leitað til læknis vegna einkenna sem kunna að tengjast loftmengun á svæðinu að sögn Sigrúnar Ágústsdóttur sviðstjóra hjá stofnuninni,“ segir í tilkynningunni, en íbúar eru þar sérstaklega hvattir til að láta í sér heyra svo hægt sé að fá góða yfirsýn yfir málið.
