Erlent

Leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar dæmdur í fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexei Navalní þarf að dúsa í fangelsi í tuttugu daga.
Alexei Navalní þarf að dúsa í fangelsi í tuttugu daga. Vísir/AFP
Dómstóll í Moskvu hefur dæmt Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, í tuttugu daga fangelsi fyrir að efna til mótmæla án leyfis yfirvalda. Navalní var handtekinn á föstudag þegar hann var á leið á mótmælin.

Mótmælin áttu að fara fram í Sankti Pétursborg en fyrir þeim hafði ekki fengist leyfi. Lögreglumenn stöðvuðu för Navalní frá Moskvu, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Navalní hefur verið einn vinsælasti stjórnarandstöðuleiðtogi Rússlands frá því að hann tilkynnti um framboð til forseta. Grasrótarhreyfing hefur sprottið upp í landinu til að styðja framboðið en kosið verður á næsta ári.

Stjórnvöld hafa hin svegar reynt að leggja stein í götu hans. Þau segja að að dómur sem hann hlaut fyrir fjársvik geri hann ókjörgengan. Navalní hefur alla tíð neitað ásökunum um fjársvik og segir þær hefnd ríkisstjórnarinnar vegna gagnrýni hans á hana.

Lögum um samkomur á almannafæri var breytt í kjölfar fjölmennra mótmæla gegn stjórnvöldum frá 2011 til 2012. Nú liggur allt að þrjátíu daga fangelsi við ítrekuðum brotum á lögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×