Samkvæmt AFP fréttaveitunni brutust átökin út þegar flokkarnir voru að kjósa nýjan forseta þingsins, þrátt fyrir að núverandi forseti hefði slitið þingfundi.
Zoran Zaev, leiðtogi Sósíal-demókrata, sást með blóðugt andlit í þinghúsinu í kvöld. Hann hafði myndað stjórnarsáttmála með flokkum Albana, en forseti landsins hefur neitað að veita honum umboð til ríkisstjórnarmyndunar.
Flokkurinn VMRO-DPMNE hafði stjórnað Makedóníu í um áratug áður en kosningarnar fóru fram í desember. Sá flokkur fékk fleiri þingmenn en Sósíal-demókratar en tókst ekki að semja við Albani um stjórnarsamstarf.
Mótmælendurnir sem ruddust inn í þinghúsið virðast vera stuðningsmenn VMRO-DPMNE. Þeir hafa kallað eftir nýjum kosningum.