Logi Ólafsson var í gær ráðinn eftirmaður Milos Milojevic hjá Víkingum og mun stýra liðinu í fyrsta sinn á móti KA á Akureyri á laugardaginn.
Logi er því að koma aftur í Víkina eftir 25 ára fjarveru en hann stimplaði sig inn sem þjálfari í efstu deild karla fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan.
Logi þjálfaði líka Víkinga á árunum 1990 til 1992 og gerði liðið þá að Íslandsmeisturum sumarið 1991. Liðið hefur ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn eftir að Logi yfirgaf Víkina.
Þetta er áttunda starf Loga í efstu deild karla og í þriðja sinn sem hann tekur við liði á miðju tímabili.
Logi tók einnig við ÍA 1997 og KR 2007 á miðju tímabili. Það er skemmtileg staðreynd að það skuli alltaf líða tíu ár á milli.
Logi tók við Skagaliðinu af Ivan Golac um miðjan júlí 1997. Skagamenn höfðu þá tapað sínum fjórða leik á tímabilinu eftir að hafa unnið titilinn fimm ár þar á undan. Þetta var í annað skiptið sem Logi þjálfaði ÍA en hann gerði liðið að meisturum 1995. Undir stjórn Loga varð ÍA í öðru sæti á eftir ÍBV á 1997-tímabilinu. Logi þjálfaði ÍA fram til 1999.
Logi tók við KR-liðinu af Teiti Þórðarsyni í lok júlí 2007. KR-liðið var þá í neðsta sæti deildarinnar með aðeins einn sigur og sex töp í fyrstu 11 leikjum sínum. Logi stýrði KR-liðinu upp í áttunda sætið og var þjálfari liðsins fram á mitt sumar 2010. Undir hans stjórn varð KR bikarmeistari 2008.
Logi tekur við á miðju sumri á tíu ára fresti | 1997, 2007 og 2017

Tengdar fréttir

Logi í viðræðum við Víkinga
Maðurinn sem gerði Víking síðast að Íslandsmeistara gæti tekið aftur við liðinu.

Logi ráðinn þjálfari Víkinga
Logi Ólafsson snýr aftur í Víkina 25 árum eftir að hann var þar síðast.

Logi kveður Pepsi-mörkin: Hörður Magnússon hlýtur að fara að fá þjálfaratilboð
Logi Ólafsson, nýráðinn þjálfari Víkinga, var í viðtali hjá Arnari Björnssyni, í kvöldfréttum Stöðvar tvö en Logi tók við Víkingsliðinu í dag