Fjöldi hátíða fer fram víðs vegar á landinu um helgina og kennir ýmissa grasa. Spáin hljóðar ekki upp á bongóblíðu enda stefnir í að vindasamt verði víðast hvar. Íslendingar eru þó öllu vanir þegar kemur að vindi og verður eflaust góð stemning á flestum stöðum.
Í Garði á Reykjanesi fer Sólseturshátíðin fram en um er að ræða fjölskylduhátíð á Garðskaga.
Í Hveragerði fer landsmót UMFÍ 50 ára og eldri fram. Í Borgarnesi fer Brákarhátíðin fram en um er að ræða fjölskylduháíð til heiðurs Brák, kvenhetjunni miklu frá víkingatímum.
Humarhátíðin fer fram á Höfn í Hornafirði þar sem humarsúpan verður fyrirferðamikil en viðburðir eru víða í sveitafélaginu.
Í Skagafirði fara fram tvær hátíðir. Annars vegar Lummudagar á Sauðárkróki og hins vegar Drangey Music Festival á Reykjum, rétt norðan við Krókinn, þar sem Emmsjé Gauti, Jónas Sig, Mugison og Amabadama koma meðal annars fram.
Barokk hátíðin fer fram á Hólum í Hjaltadal hefst á mánudaginn en um er að ræða tónlistarhátíð fyrir unnendur barroktónlistar.
Athugið að listinn yfir hátíðar þessa helgina er líkast til ekki tæmandi og er hátíðarhöldurum bent á að senda ábendingu um fleiri hátíðir á ritstjorn@visir.is.
Hátíð um allt land um helgina
